„Það er brot á stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum um félagafrelsi, að skrá menn í félög án atbeina þeirra sjálfra. Menn geta velt því fyrir sér hvað mundi gerast ef trúfélög færu að gera þetta líka,“ segir Einar Gautur Steingrímsson, hæstaréttarlögmaður, er Viljinn bar undir hann bréf sem barst greiðanda í stéttarfélag Eflingar.
Viljanum barst í morgun afrit af bréfinu, en viðtakandinn furðaði sig m.a. á því að vera ávarpaður „Dear comrade“ eða „Kæri félagi“ með vísun í það sem tíðkaðist í ríkjum austurblokkarinnar á árum áður, þar sem kommúnistaflokkarnir fóru með öll völd.
Viðtakandi bréfsins er ekki fullgildur félagsmaður Eflingar, en hann fékk bréf frá félaginu, undirritað af formanni þess, Sólveigu Önnu Jónsdóttur. Í bréfinu, sem er á ensku, er viðtakandanum boðið að gerast fullgildur félagsmaður í Eflingu til að njóta fullra réttinda félagsmanna, með því að hafa samband við félagið.
Tekið er fram að hafi viðkomandi ekki samband, verði hann sjálfkrafa skráður í félagið innan tíu daga frá dagsetningu bréfsins.
Viljinn spurði Einar Gaut hversvegna fólk sem ekki er félagar í verkalýðsfélögum væru að greiða í þau, svaraði hann:
„Það er heilmikið á gráu svæði í sambandi við greiðslur tengdar stéttarfélögum, svo sem í sjúkrasjóði og fleira, og það er verkefni dómstólanna að greiða úr því hvar mörkin liggja.“