Efling: Verkfall þerna á kvennafrídeginum einstaklega vel heppnað

Verkfallsbrot verða tilkynnt og sett í ferli hjá lögmanni

Talsverð stemming og fín mæting var á verkfallsvöku Eflingar þegar Viljinn leit þar við um kl. 14.30 í dag, en þar voru saman komnar margar erlendar verkakonur ásamt fleiri félagsmönnum úr Eflingu og fólki sem vildi sýna stuðning. Boðið var upp á kaffi og kökur og tónlistarmenn léku fyrir dansi.

Margir viðmælenda sögðust tilbúnir í verkfall, þrátt fyrir áhyggjur af því hvaða afleiðingar slíkar aðgerðir gætu haft fyrir þau og atvinnulífið í heild, því að „eitthvað verði að gera“, launin dugi hreinlega ekki lengur fyrir framfærslu.

Það var í nógu að snúast hjá formanni Eflingar í dag.

Verkamaður sem kom á staðinn til að sýna samstöðu, kvaðst hafa náð að hækka launin aðeins sín með því að hætta að vinna sem launamaður og verða verktaki, en væri samt sem áður enn með lágar tekjur. Hann sagði að erlent verkafólk sem býr hérlendis beri ekki mikið úr býtum, en öðru máli gegni um starfsmenn starfsmannaleiga sem stoppa stutt og fari með launin sín til heimalandsins. „Hér er einfaldlega allt svo dýrt.“

Í yfirlýsingu þakkar Efling öllum sem saman lögðu hönd á plóg við að gera verkfall hótelþerna á alþjóðlega kvennafrídeginum 8. mars að „einstaklega vel heppnuðum viðburði“.   Starfsfólk Eflingar tók á móti umsóknum um greiðslur úr vinnudeilusjóði auk þess sem hægt var að greiða atkvæði í yfirstandandi verkfallskosningu.

Í hádeginu tóku formaður og félagsmenn Eflingar þátt í dagskrá á Lækjartorgi þar sem áherslan var á hagsmunamál og baráttu verkakvenna. Að því loknu hélt dagskrá áfram í Gamla bíó þar sem félagsmenn Eflingar og fleiri góðir gestir héldu ávörp inni á milli tónlistaratriða. Klukkan 16:00 var efnt til kröfugöngu fram hjá helstu hótelum miðbæjarins.

Á sama tíma sinnti starfsfólk Eflingar verkfallsvörslu á hótelum, en varslan fór fram í nokkrum teymum sem heimsóttu hótel samkvæmt fyrirfram ákveðinni áætlun. Að sögn Viðars Þorsteinssonar framkvæmdastjóra Eflingar var nokkuð um verkfallsbrot, en þó í langflestum tilvikum ekki umfangsmikil eða gróf.

„Félagsmenn Eflingar og yfirmenn hótela virðast hafa verið nokkuð vel upplýstir um sín réttindi og skyldur,“ sagði Viðar. Hann sagði að almennt hafi verið vel tekið á móti verkfallsvörðum Eflingar og þeim veittur aðgangur til að skoða helstu rými í hótelum. Öllum tilfellum um verkfallsbrot verður safnað saman. Eftir helgi verður fundað með lögmanni Eflingar og mat lagt á næstu skref varðandi eftirfylgni.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagðist vera himinlifandi eftir daginn. „Það hefur verið sérstakt að hlusta á ýmsa karlkyns valda- og auðmenn gera lítið úr tilfinningum okkar láglaunakvenna í sambandi við þennan stórkostlega dag. Auðvitað kemur barátta okkar ekki til af góðu, en við munum ekki láta yfirstéttina neita okkur um stolt okkar og gleði yfir því að tilheyra baráttuhreyfingu. Við ætlum að breyta samfélaginu þannig að við njótum réttlætis, virðingar og sýnilega og við látum engan segja okkur fyrir verkum,“ sagði Sólveig Anna.

„Ég vil þakka félagsmönnum okkar, hótelþernum og öllum sem komu til að sýna samstöðu, fyrir daginn,“ sagði Sólveig.