Hörður Ægisson, ritstjóri Markaðar Fréttablaðsins, er harðorður í leiðara blaðsins í dag, þar sem hann veltir vöngum yfir yfirvofandi verkfalli Eflingar í leikskólum borgarinnar og kröfugerð verkalýðsfélagsins, sem er langt umfram það sem samið hefur verið um hingað til í svonefndum lífskjarasamningum.
„Forystumenn Eflingar hafa skorið sig úr samfloti við SGS og neita að semja við Reykjavíkurborg á sömu nótum og önnur félög hafa gert. Skiptir þá engu að þeir samningar séu á grunni Lífskjarasamningsins sem Efling stóð sjálf að fyrir aðeins fáeinum mánuðum – nú skal farið fram með enn sverari launakröfur. Ekkert þokast í viðræðum og það stefnir í verkföll um 1.800 starfsmanna, að stórum hluta á leikskólum. Formaður samninganefndar borgarinnar, áður yfirmaður kjaramálasviðs Eflingar, hefur sagt kröfur stéttarfélagsins þýða heildarlaunahækkanir á samningstímabilinu sem væru langt umfram það sem um var samið á hinum almenna markaði. Útilokað er að verða við þeim kröfum og um leið skapa fordæmi sem myndi setja Lífskjarasamninginn, og í kjölfarið allan vinnumarkaðinn, í uppnám á afar viðkvæmum tímum.
Flestir sjá hvaða leik er verið að leika. Forystusveit Eflingar, sem aðhyllist 19. aldar marxískar kennisetningar um viðvarandi stéttastríð milli atvinnurekenda og launafólks, ásamt fylgihnöttum þeirra í Sósíalistaflokknum, virðist hafa það að markmiði að brjóta upp þann stöðugleika sem náðst hefur á vinnumarkaði. Það vekur eftirtekt að leiðtogar annarra verkalýðsfélaga hafa ekki séð ástæðu til að lýsa yfir stuðningi við vegferð Eflingar. Það kemur ekki á óvart. Allir vita hvaða hagsmunir eru undir fyrir venjulegt launafólk að Lífskjarasamningurinn haldi.
Þeir sem ráða för í Eflingu skeyta á móti lítt um þær staðreyndir. Allir sem andmæla ruglinu sem þaðan kemur, breytir þá litlu hvort það séu forsvarsmenn í atvinnulífinu eða fyrrverandi starfsmenn Eflingar til margra ára, eru um leið útmálaðir sem óvinir hinna vinnandi stétta. Sífellt fleiri eru hins vegar farnir að átta sig á því hverjir þeir raunverulega eru,“ segir Hörður.