Stjórn Miðflokksfélags Reykjavíkurkjördæmis suður hefur ákveðið að efna til oddvitakjörs um næstu helgi til að leysa úr ágreiningi um framboðslista sem kominn er upp eftir að félagsfundur hafnaði tillögu uppstillinganefndar fyrir helgi.
Eins og Viljinn skýrði frá á fimmtudagskvöld, fólst tillagan í því að að Fjóla Hrund Björnsdóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Miðflokksins, yrði oddviti í stað Þorsteins Sæmundssonar alþingismanns.
Afar fátítt er að tillögur uppstillinganefnda stjórnmálaflokkanna hljóti ekki brautargengi á félagsfundum. Oftast eru þær einróma samþykktar með lófaklappi. En stuðningsmenn Þorsteins voru ósáttir við hlutskipti hans og felldu listann í heild sinni með 30 atkvæðum gegn fjórtán.
Fjóla Hrund hefur þó enn stuðning uppstillingarnefndarinnar, sem telur nauðsynlegt að Miðflokkurinn gæti að kynjahlutfalli í vali á oddvitum kjördæmanna og stilli upp nýjum andlitum í bland við reynslumeiri.
Þorsteinn sækist enn eftir oddvitasætinu, en þar sem tillögu uppstillingarnefndar var hafnað komst málið allt allt í biðstöðu og enginn framboðslisti klár. Nú á að efna til óvænts oddvitakjörs milli Þorsteins og Fjólu næstkomandi föstudag og laugardag. Þar munu félagsmenn ákveða endanlega hver leiðir listann.
Nánari upplýsingar um framkvæmd kosningarinnar verða birtar á heimasíðu flokksins.