Eftir er að botna umræðuna um veggjöld og þjóðarsjóð

Fundargestur heilsar formanni Sjálfstæðisflokksins á fundi í Iðnó. / Viljinn: Erna Ýr Öldudóttir.

„Stjórnmálin hafa kannski í grunnin, gildin, ekki mikið breyst en leiðirnar til að eiga samskipti og hlusta, til að finna hvernig takturinn slær í samfélaginu, þær eru mjög að breytast,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, m.a. í byrjun fundar sem bar yfirskriftina „Hittu þingflokkinn í Reykjavík“, sem er hluti af kjördæmaviku og hringferð flokksins um landið. í Iðnó í dag. Vísaði hann þar til tilkomu samfélagsmiðlanna.

Viljinn var á staðnum og hitti þingmenn og tók fjármálaráðherra tali, en mikill fjöldi gesta og kjörinna fulltrúa Sjálfstæðisflokksins voru á staðnum. Á meðal þeirra voru Jón Gunnarsson, þingmaður og formaður umhverfis- og samgöngunefndar.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, og Jón Gunnarsson formaður samgöngunefndar Alþingis. / Viljinn: Erna Ýr Öldudóttir.

Spurður hvað honum finndist um hugmyndir Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um að nota arðgreiðslur úr Landsvirkjun til að fjármagna samgönguáætlun í stað veggjaldaleiðarinnar, svaraði Jón:

„Hann verður auðvitað að fara að gera það upp við sig hvaða leið hann vill fara í þessu. Við vorum bara í síðustu viku að afgreiða leið til þess, það var um það almennt góð samstaða að um að fara þá leið sem var ákveðin,“ segir Jón og á þar við tillögur meirihluta samgöngunefndar um veggjöld. Hann segist munu styðja það að nota arðgreiðslurnar úr Landsvirkjun til að gera heldur skattalækkanir, skapist til þess svigrúm.

„Þannig væri hægt að lækka eða leggja niður skatta af ökutækjum eða eldsneyti, til að mæta gjaldtöku á vegunum,“ segir Jón og bendir á að stór hluti þeirra sem aki um á vegunum séu ferðamenn, en hann vill að þeir taki þátt í uppbyggingunni með okkur. Hann segir afar mikilvægt að hraða uppbyggingu vegakerfisins hraðar en hefur verið ráðið við, þar eð alvarleg og kostnaðarsöm slys séu orðin allt of tíð á vegunum.

Fjölmenni var á fundinum í Iðnó. Hér má m.a. sjá Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Brynjar Níelsson alþingismann, Unni Brá Konráðsdóttur fv. forseta Alþingis, Ólaf Teit Guðnason aðstoðarmann iðnaðarráðherra og Svanhildi Hólm Valsdóttur, aðstoðarmann fjármálaráðherra. / Viljinn: Erna Ýr Öldudóttir.

Einnig nefnir hann að skoða megi aðrar leiðir eins og t.d. að selja ríkiseignir á borð við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, með þeim rökum að ríkið þurfi ekki að eiga hana frekar en t.d. Smáralind.

Fullt var út úr dyrum á fundinum í Iðnó. / xd.is

Á að eyða sömu peningunum tvisvar?

Viljinn spurði Bjarna Benediktsson um það hvernig hann sæi það fyrir sér að nota arðgreiðslur úr Landsvirkjun, samtímis í samgönguáætlun og til að fjármagna þjóðarsjóð, sem er hans tillaga um það hvernig þær arðgreiðslur muni verða notaðar.

„Sigurður Ingi hefur hvergi lagt til að sú leið yrði farin, að nota allar arðgreiðslur úr Landsvirkjun í samgönguáætlun, í stað þess að fara veggjaldaleiðina. Hann hefur hinsvegar bent á, að það er ekki komið fram frumvarp eða skýrt afmörkuð tillaga um veggjöldin,“ segir Bjarni.

Við eigum eftir að botna þá umræðu, hvernig við fjármögnum þessar áskoranir sem við stöndum frammi fyrir inn í framtíðina. Fyrir liggur þinginu liggur tillaga um að stofna þjóðarsjóð, þar er gert ráð fyrir því að arðgreiðslur úr Landsvirkjun verði uppistaðan í fjármögnun þjóðarsjóðs, við erum á fyrstu stigum þeirrar umræðu. Ef Sigurður Ingi telur að þetta sé eitthvað sem þurfi að ræða, að þá eigum við eftir að ræða það,“ var svar Bjarna við því.

Óli Björn Kárason, þingmaður. / Viljinn: Erna Ýr Öldudóttir.

Vill aðeins svara fyrir sjálfan sig

Að lokum ræddi Viljinn við Óla Björn Kárason, þingmann, og spurði hvernig hljómgrunnur í Sjálfstæðisflokknum væri gagnvart fjölmiðlafrumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Daggar Alfreðsdóttur:

„Ég hef þegar lýst því opinberlega að ég mun ekki styðja það,“ segir Óli Björn, sem vill aðeins svara fyrir sjálfan sig. „Ég tel að skynsamlegri leiðir séu til. Fyrirætlun ráðherra er góð, en þetta er ekki rétta leiðin.“

Skynsamlegri leiðir megi fara, eins og þá að lækka eða fella niður tryggingagjald og bæta samkeppnisumhverfi einkarekinna fjölmiðla með því að setja þak á auglýsingjatekjur Ríkisútvarpsins til að byrja með, svo eigi taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði og draga úr umsvifum þess.