„Ég skipaði mér hiklaust í sveit lýðræðisaflanna“

Í dag eru sjötíu ár liðin frá því Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) með 37 atkvæðum gegn 13. Allir þingmenn Sósíalistaflokksins greiddu atkvæði gegn tillögunni auk Gylfa Þ. Gíslasonar og Hannibals Valdimarssonar, þingmanna Alþýðuflokksins, og Páls Zóphoníassonar, þingmanns Framsóknarflokksins. Framsóknarmennirnir Hermann Jónasson og Skúli Guðmundsson sátu hjá.

Eins og alþekkt er, urðu í kjölfarið mikil mótmæli á Austurvelli og þurfti lögregla að beita kylfum og táragasi til að ná tökum á aðstæðum eftir að andstæðum fylkingum laust saman og steinum og hverskyns smálegu rigndi yfir Alþingishúsið. Rúður voru brotnar og varalið lögreglu gerði útrás úr þinghúsinu vopnað kylfum.

Forsíða Vísis daginn eftir mótmælin.

Skessuhorn birti fyrir nokkrum árum í jólablaði sínu ítarlegt tveggja opnu viðtal við Ásgeir Pétursson fyrrum sýslumann Borgfirðinga á árunum 1961-1979. Í viðtalinu, sem Magnús Þór Hafsteinsson ritstjóri og fv. alþingismaður tók, fór Ásgeir víða yfir viðburðaríka ævi sína og tjáði sig meðal annars af hreinskilni um aðkomu sína að átökunum sem urðu á Austurvelli 30. mars 1949.

Í viðtalinu greindi Ásgeir frá því í fyrsta sinn að hann hafi verið foringi varnarliðs Alþingishússins sem myndað var til aðstoðar lögreglu þennan dag þar sem menn óttuðust að kommúnistar og aðrir andstæðingar NATO-aðildar ætluðu að ráðast inn í Alþingisþinghúsið og rjúfa þingfund. Ásgeir segir að það hafi verið hann sem gaf varnarliðinu fyrirskipun um að ryðjast út úr þinghúsinu ásamt lögreglu eftir að lögreglustjórinn í Reykjavík leitaði til hans. Áður en Ásgeir gerði þetta ræddi hann við og fékk samþykki hjá Bjarna Benediktssyni sem var utanríkis- og dómsmálaráðherra. 

Átökunum lyktaði þannig að mótmælendum var stuggað frá þinghúsinu út á miðjan Austurvöll áður en lögreglan greip til þess að skjóta táragasi sem dreifði mannfjöldanum. Þinghúsið var skemmt eftir þessi átök enda dundi á því grjóthríðin, og margir voru sárir eftir barsmíðar og átök. Þessi atburður og deilur í kjölfarið urðu hitamál meðal þjóðarinnar um áratugaskeið.

„Ég skipaði mér hiklaust í sveit lýðræðisaflanna þegar ég varð sannfærður um að við ættum að gera Keflavíkursamninginn og ganga í NATO. Málið snerist um öryggi Íslands í heimi sem barst um í róti ófriðar hvert sem litið varð. Sem unglingur hafði ég upplifað hræringar kreppuáranna. Ég varð vitni að slagsmálum þegar horfði á Gúttóslaginn svokallaða 1932. Ég klifraði 10 ára gamall upp á girðingu við Iðnó og sá þessi áflog. Ég hafði svo stundað háskólanám og sjómennsku á stríðsárunum. Öll mín unglingsár upplifði ég þetta haturskennda hugarfar milli Evrópuþjóða, það er Þjóðverja, Frakka, Rússa og svo framvegis. Aftur og aftur, öld eftir öld hafði hann endað með skelfilegum styrjöldum.

Forsíða Þjóðviljans daginn eftir.

Ég hafði horft á nasismann sem var öfgastefna þótt þeir kölluðu sig sósíalista, gera ekki-árásarsamninga við hlutlaus ríki eins og Holland og Belgíu, Noreg og Danmörku. Adolf Hitler og þessir hörmulegu vandræðamenn sem stýrðu hreyfingu nasista byrjuðu ófriðinn með því að ráðast á þjóðirnar sem þeir höfðu lofað að gera ekki árásir á. Kommúnistarnir í Sovétríkjunum gerðu þetta líka gagnvart Finnlandi og Póllandi. Engin dæmi voru um svona háttarlag frá Kanada eða Bandaríkjunum,“ sagði Ásgeir í viðtalinu.

Atlantshafsbandalagið sjötíu ára

Fjórða apríl næstkomandi verður þess minnst víða, þar á meðal á hátíðarfundi Varðbergs í Veröld, húsi Vigdísar, að 70 ár verða liðin frá stofnun NATO. Þá gerðist Ísland stofnaðili að Norður-Atlantshafsbandalaginu. Þátttaka NATO-ríkjanna grundvallaðist á Norður-Atlantshafssáttmálanum sem kveður meðal annars á um að árás á eitt aðildarríki jafngildi árás á þau öll (5. grein sáttmálans).

Markmið bandalagsins var að stemma stigu við þeirri hættu sem talin var stafa af Sovétríkjunum og ásælni þeirra til vesturs.

Frá mótmælunum sögulegu á Austurvelli.

Í raun ákaflega vel á sig komið

Á vefsíðu bandarískra tímaritsins Foreign Affairs birtist miðvikudaginn 20. mars grein eftir Charles A. Kupchan, prófessor í alþjóðastjórnmálum, við Georgetown-háskóla í Washington undir fyrirsögninni: NATO vegnar vel þrátt fyrir Trump. Á heimasíðu Varðbergs hafa verið birtir kaflar úr greininni sem fara hér á eftir:

Hér eru  kaflar úr greininni:

NATO 70 ára er í raun ákaflega vel á sig komið. Já, það er rétt evrópsk bandalagsríki hafa ekki staðið sig sem skyldi þegar litið er til útgjalda til varnarmála og sum ríki – sérstaklega Ungverjaland, Pólland og Tyrkland – hafa svert lýðræðislega stjórnarhætti. NATO hefur á hinn bóginn sýnt aðdáunarverða hæfni til að laga sig að nýrri geopólitískri stöðu eftir lyktir kalda stríðsins, tryggt að Bandaríkin og Evrópu vinna áfram saman. Bandalagið opnaði dyr sínar fyrir nýjum lýðræðisríkjum sem urðu til eftir hrun Sovétríkjanna og lagði sitt af mörkum til að festa öryggi og lýðræði í sessi í víðáttumeiri Evrópu. Frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu árið 2014 hafa bandalagsríkin stigið mikilvæg skref til efla fælingarmátt sinn í því skyni að halda aftur af ævintýramennsku Kremlverja. NATO hefur stofnað til samstarfs við ríki um heim allan og framkvæmt metnaðarfullar aðgerðir langt út fyrir landsvæði aðildarríkjanna – þar má sérstaklega nefna Balkanríkin, Afganistan og Líbíu. Þetta hefur allt gerst á sama tíma og bandalagið hefur tileinkað sér ný verkfæri til að takast á við nýjar hættur eins og netógnir, hryðjuverk, fjölþættan hernað og farandfólk. Einmitt vegna þess að NATO hefur tekist fimlega og með góðum árangri að takast á við viðfangsefni sín nýtur bandalagið öflugs pólitísks stuðnings beggja vegna Atlantshafs svo að Trump stendur í raun einn sem hávær gagnrýnandi.

Manlio Brosio þáverandi framkvæmdastjóri NATO, Bjarni Benediktsson þáverandi forsætisráðherra Íslands og William Rogers þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna á tuttugu ára afmæli Norður-Atlantshafsbandalagsins 1. apríl 1969.

Þá er að geta þeirrar þverstæðu að lamandi árásir Trumps á bandalagið styrkja í raun NATO. Málsvarar bandalagsins koma úr fylgsnum sínum, einkum á Bandaríkjaþingi. Endurteknar skammarræður Trumps í garð bandamanna sinna fyrir að leggja ekki nóg fé af mörkum til varnarmála skila árangri: Evrópuríkin festa loksins meira fé í herafla sínum sem eykur aðeins líkurnar á því að Bandaríkjamenn ákveði að halda fast í Evrópu sem samstarfsaðila. Þá kunna efasemdir Trumps um stækkun NATO auðvelda lausn á viðvarandi ágreiningi um stækkunina, leiða bandalagsríkin til þeirrar skynsamlegu niðurstöðu að tímabært sé að loka opnum dyrum þess.

NATO hefur áttunda áratug sinn við góða heilsu vegna þess að bandalaginu tekst mjög vel að gæta sameiginlegra hagsmuna aðildarríkja sinna. Árás Rússa á Úkraínu hefur beint athyglinni innan NATO aftur að hefðbundnu hlutverki þess í þágu varna yfirráðasvæðis aðildarlandanna. Á ríkisoddvitafundi NATO árið 2016 var tekin sú forsjála ákvörðun að senda sveitir í bardagastöðu til Eistlands, Lettlands, Litháens og Póllands. Bandaríkjaher hefur aukið viðveru sína á austur vængnum og Trump-stjórnin hefur samþykkt að auka útgjöld til varna Evrópu og sent liðsauka til álfunnar. Á ríkisoddvitafundinum árið 2018 var ákveðið að koma á fót tveimur nýjum herstjórnum til að efla öryggi á sjóleiðunum milli Norður-Ameríku og Evrópu og bæta hreyfanleika heraflans innan Evrópu.