Eiga aldraðir og fólk í viðkvæmum hópum nú aftur að loka sig af heima við?

Þórólfur sóttvarnalæknir Guðnason. / Lögreglan.

„Ég er ekki endilega að segja að aldrað fólk og þeir sem tilheyra viðkvæmum hópum eigi nú að fara aftur heim og loka sig inni. Það þarf bara að passa sig á mannmergð og forðast hana, vera ekki í of mikilli nánd við fólk sem það þekkir ekki og gæta að tveggja metra smitbilinu, þvo sér vel um hendur og nota spritt. Þetta eru grundvallarreglur allra Íslendinga nú um stundir og til framtíðar, en auðvitað einkum þeirra sem teljast vera í áhættuhópi fyrir veirunni. Ef fólk virðir þetta og passar sig, er það um leið að lágmarka líkur á að smitast og um leið að auka líkurnar á því að njóta þess áfram sem samfélagið býður upp á,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við Viljann.

Fjölmargir sem tilheyra viðkvæmum hópum hafa haft samband við Viljann að undanförnu og spurt hvort þeir þurfi nú aftur að hætta samneyti við fólk og loka sig af heima, eins og margir gerðu í febrúar til maí hér á landi á meðan fyrsta bylgja veirunnar gekk yfir landið.

Í tilkynningu frá Almannavörnum nú eftir hádegið, segir að smitrakning standi yfir vegna hugsanlegrar hópsýkingar á höfuðborgarsvæðinu. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er vitað um tvö innanlandssmit sem talið er að rekja megi til Íslendings sem talinn er hafa smitast í útlöndum, en hafði ekki greinst með veiruna við komuna til landsins.

„Miklum fjölda fólks hefur verið skipað í sóttkví vegna málsins og líklegt er að fjölga muni í þeim hópi. Mjög mikilvægt er að allir þeir sem fá boð um sóttkví hlíti því undanbragðalaust og fylgi öllum fyrirmælum í hvívetna. Þannig er hægt að minnka líkur á að hugsanleg hópsýking sem þessi leiði til víðtækari afleiðinga.

Áréttað skal að þeir sem sæta 14-daga sóttkví vegna útsetningar fyrir smiti þurfa að ljúka henni, jafnvel þótt sýnataka á tímabilinu gefi neikvæða niðurstöðu.

Almannavarnir vilja einnig koma á framfæri þeim eindregnu tilmælum til Íslendinga sem snúa heim frá útlöndum, að þeir fari gætilega fyrst um sinn eftir heimkomu, taki ekki þátt í mannmörgum viðburðum, og takmarki samneyti við einstaklinga sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum ef þeir smitast af COVID-19, svo sem aldrað fólk,“ segir þar ennfremur.