Eigandi Menn í vinnu sakar verkamennina um lygi, þeir hafi víst fengið greitt

Halla Rut Bjarnadóttir, eigandi Menn í vinnu.

Halla Rut Bjarnadóttir, eigandi starfsmannaleigunnar Menn í vinnu, segir að forstjóri Binnumálastofnanir sé í húrrandi mótsögn við sjálfa sig með ásökunum um að fyrirtækið sé í glæpastarfsemi vegna mála erlendu verkamannanna sem ASÍ heimsótti á föstudag og skýrt var frá í kvöldfréttum beggja sjónvarpsstöðvanna.

Í opinni færslu á fésbókinni stígur eigandi fyrirtækisins sem um ræðir fyrst fram, og sakar verkamennina um lygar, þeir hafi fengið allt sitt greitt og hægt sé að sanna það.

Hún ávarpar Unni Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar, beint og segir:

„Þú segist hafa verið með fyrirtækið í gjörgæslu og skoðað öll gögn og farið yfir allt og allt hafi verið í fullkomnu lagi. En samt er fólkið sem rekur fyrirtækið glæpamenn og það þarf að stöðva það. Svo ég spyr, á hvaða forsendum er fólkið glæpamenn og afhverju þarf að stöðva það. Hvað þarf að stöðva? Hvaða brot eru þarna í gangi?“ spyr Halla Rut.

„Þú veist jafnvel og Efling og jafnvel og Stöð 2 og jafnvel og ASÍ að allir mennirnir í viðtali Stöðvar 2 á fimmtudaginn lugu um allt og höfðu allir fengið sín laun borguð og það nokkuð hærra en þeirra samningur sem þín stofnun samþykkti í júlí 2018. Þú segir þig skorta einhverjar lagaheimildir. Hvaða lagaheimildir eru þær. VMST stjórnar öllum samningum og getur beðið um öll gögn hjá starfsmannaleigum. Engin fyrirtæki á Íslandi eru undir eins miklu eftirliti eða lúta eins ströngum reglum þegar að mannahaldi kemur. En fyrst það er eitthvað sem þú heldur að þú hafir ekki aðgang að þá skora ég á þig að mæta á skrifstofu Menn í vinnu ehf klukka 14:00 á mánudaginn með eins marga aðstoðamenn og fræðinga með þér sem þú telur þig þurfa og við skulum opna ALLT fyrir þig. Þú mátt fá aðgang að bankanum okkar og öllum gögnum. Endilega svaraðu fyrir klukkan 11:00 á mánudaginn svo við getum keypt bakkelsi og haft heitt á könnunni,“ segir hún ennfremur.

„En ef það reynist rétt, eins og þið vel vitið nú þegar, að þessum mönnum voru greidd laun og að þeir lugu, þá viljum við formlega afsökunarbeiðni í öllum fjölmiðlum þar sem þið hafið lagst gegn fyrirtækinu,“ bætir hún við.