Góðu fréttirnar eru þær að við erum í einstakri stöðu til að hefja uppbyggingarskeið, segir Jón Gunnarsson þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokksins í fylgiriti frá Sjálfstæðisflokknum sem fylgir Morgunblaðinu í dag og ber heitið: Á réttri leið. Markar það upphaf fundaherferðar þingflokks sjálfstæðismanna um landið.
„Við eigum einfaldlega að umbreyta eign ríkisins í Íslandsbanka í arðbærar fjárfestingar í innviðum. Það er af nógu að taka, allt frá hefðbundnum samgöngufjárfestingum í vegum, brúm og höfnum yfir í fjarskipti, s.s. nýjan gagnastreng og aðra grunninnviði m.a. í heilbrigðisþjónustu.
Það getur tekið tíma að losa um eignarhaldið, en mikilvægast er að setja stefnuna á að selja. Hér er mikilvægt að hafa í huga að ekki er nauðsynlegt að selja allt í einu svo það skipti verulegu máli.
Eigið fé Íslandsbanka er rúmlega 170 milljarðar króna. Jafnvel þótt bankinn myndi seljast á lægra verði en eigið fé hans segir til um, myndi sala á 25–50% eignarhlut á næstu árum opna stór tækifæri til fjárfestinga. Ég efast um að nokkur önnur þjóð í Evrópu sé í annarri eins stöðu til að taka til í efnahagsreikningi sínum og leggja grunn að aukinni verðmætasköpun til framtíðar,“ segir hann ennfremur.
Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um gjaldtöku til að fjármagna samgöngubætur og Jón segir það skiljanlegt, vegna þess að við þurfum að hraða framkvæmdum, en nærtækari leið sé að losa um þessa verðmætu eign og afmarka gjaldtöku í framtíðinni við stærri framkvæmdir á borð við Sundabraut, Hvalfjarðargöng og aðra gangagerð.
„Í ljósi tillagna fjármálaráðherra um að hluti söluverðmætis Íslandsbanka fari til fjárfestinga í samgöngumálum, gjörbreytast forsendur samgönguætlunar sem þingið hefur til meðferðar þessa dagana. Það er mjög jákvætt að staða ríkissjóðs skuli vera orðin svo öflug að hægt sé að falla frá hugmyndum um að söluverðmæti bankanna fari til þess að greiða niður skuldir eins og upphafleg áform voru um.
Nýjar forsendur fjármálaráðherra draga verulega úr þörfinni á að efna til sérstakrar gjaldtöku til uppbyggingar samgöngumannvirkja. Mikilvægt er að samgöngu nefnd Alþingis taki tillit til þessa í vinnu við samgönguáætlun og að fundin verði leið til að framkvæmdir á grundvelli þessa hefjist á þessu ári. Með þeirri leið sem ráðherra boðar getum við vonandi bætt við verkefnum fyrir tugi milljarða á fyrsta tímabili áætlunarinnar. Áhrifin yrðu mjög mikil og í hönd færu mestu fjárfestingar sögunnar í samgöngumannvirkjum á Íslandi,“ segir Jón Gunnarsson.