Eina íslenska fyrirtækið sem hlýtur viðurkenningu í ár

Stefán Guðmundsson forstjóri Gentle Giants á Húsavík.

Hvalaskoðunarfyrirtækið Gentle Giants á Húsavík hlaut í dag afar þýðingarmikla viðurkenningu frá einu stærsta bókunarfyrirtæki sinnar tegundar í Evrópu – Þýska fyrirtækinu GetYourGuide.

Viðurkenningin er fyrir vöruna  „Big Whale Safari & Puffins“ sem er afrakstur 10 ára þrotlausrar vinnu við nýsköpun, þróun og markaðssetningu, að sögn Stefáns Guðmundssonar hjá Gentle Giants. 

Varan er sniðin utan um og farin á svokölluðum RIB bátum félagsins, sem eru 5 talsins; og hafa notið sívaxandi vinsælda frá upphafi. 

Gentle Giants er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað 2001 með allt að 50 starfsmenn þegar mest er, og brautryðjandi í notkun slíkra báta við hvalaskoðun á Íslandi og allir bátarnir sérsmíðaðir að þörfum  og hugmyndum fyrirtækisins. Þeir eru stærri og öflugri en gengur og gerist.

Bókunarfyrirtækið GetYourGuide er með 50 þúsund ferðaupplifanir í sölu á 7.600 áfangastöðum um allan heim.

Umrædd vara „Big Whale Safari & Puffins“ hlýtur viðurkenninguna í flokki Water Adventures – Mikilfenglegar Ferða Upplifanir og er Gentle Giants eina fyrirtækið á Íslandi sem hlýtur viðurkenningu frá GetYourGuide 2019, að sögn Stefáns.

„Viðurkenningin er ein af mörgum sem fyrirtækinu hefur hlotnast á undanförnum árum og afar mikilvæg staðfesting á þeirri markvissu gæðaþróun sem fram fer innan fyrirtækisins með einstökum og samstilltum hópi starfsfólks í öllum stöðum,“ bætir hann við.  

Formleg afhending fer fram í Berlín í desember nk. að viðstöddum fulltrúum Gentle Giants Whale Watching.