Einar Karl víkur tímabundið sem ríkislögmaður: Fanney Rós tekur við

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur ákveðið að setja Fanneyju Rós Þorsteinsdóttur í embætti ríkislögmanns, tímabundið til þriggja mánaða. Fanney Rós gegnir embættinu í fjarveru Einars Karls Hallvarðssonar ríkislögmanns.

Fanney Rós útskrifaðist með kandídatspróf frá Háskóla Íslands árið 2005 og meistaragráðu frá Columbia-háskóla árið 2012. Hún fékk réttindi til málflutnings í héraði árið 2006 og fyrir Hæstarétti árið 2014. Hún hefur starfað við embætti ríkislögmanns frá 2012.

Fréttablaðið skýrir frá því í dag, að mikið hafi mætt á ríkislögmanni undanfarin misseri sem hefur haldið á málsvörn ríkisins í málum sem tengjast skipun dómara í Landsrétt, bæði fyrir íslenskum dómstólum og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu (MDE). Einar Karl sé nú kominn í ótímabundið veikindaleyfi.

Þar segir einnig að gert hafi verið ráð fyrir því að málflytjendur af Íslands hálfu í Strassborg þann 5. febrúar næstkomandi yrðu Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður og breski málflytjandinn Tim Otty, auk aðstoðar annarra lögmanna.

Heimildir Fréttablaðsins herma að ekki hafi verið eining í ríkisstjórninni um þá ráðstöfun að ráða breska lögmanninn Tim Otty til að flytja Landsréttarmálið. Frumkvæðið hafi komið frá dómsmálaráðuneytinu en efasemdum hafi verið lýst um ákvörðunina bæði af hálfu embættis ríkislögmanns og forsætisráðuneytisins. Í ljósi veikinda Einars Karls liggur fyrir að hann mun ekki koma að málflutningnum í Strassborg 5. febrúar næstkomandi eins og til stóð.