„Þetta eru mjög erfiðar aðgerðir en því miður nauðsynlegar. Það er gríðarleg óvissa framundan og við þurfum að undirbúa okkur undir takmarkaða starfsemi hjá félaginu um óákveðinn tíma. Við vonumst til að aðstæður í heiminum fari að batna sem fyrst og að við getum boðið sem stærstum hluta starfsmanna sem um ræðir vinnu aftur. Markmiðið með þessum aðgerðum er jafnframt að tryggja grunnstarfsemi félagsins og halda nauðsynlegum sveigjanleika til að geta brugðist hratt við þegar eftirspurn tekur við sér á ný.“
Þetta segir Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair, en félagið tilkynnti Kauphöll í dag um eina stærstu hópuppsögn sem um getur hér á landi, ef ekki þá stærstu.
Tilefnið er auðvitað algjört hrun í ferðaþjónustu og alþjóðlegu flugi vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins í heiminum. Vegna útspils ríkisstjórnarinnar í morgun, sem líklegt er að verði lögfest á þingi fyrir mánaðarmót, er ljóst að ríkið mun greiða uppsagnarfrest hjá þeim fyrirtækjum sem verða að fækka fólki vegna faraldursins og sparar það Icelandair gríðarlegar fjárhæðir af ört minnkandi lausafé.
Alls verður rúmlega tvö þúsund starfsmönnum sagt upp störfum. Uppsagnirnar ná til allra hópa innan félagsins, en þær hafa þó mest áhrif á störf beintengd framleiðslu, svo sem áhafnir, viðhaldsþjónustu og starfsfólk flug- og farþegaþjónustu. Þeir sem starfa áfram hjá félaginu eru langflestir í skertu starfshlutfalli og aðrir í fullu starfi með skert laun.