Fjölmargar konur hafa stigið fram í dag og greint frá kynferðislegri áreitni Jóns Baldvins Hannibalssonar, eins þekktasta stjórnmálaforingja þjóðarinnar á seinni tímum, fyrrverandi formanni Alþýðuflokksins, utanríkisráðherra og síðar sendiherra í London og Washington.
Þeirra á meðal er dóttir Jóns Baldvins, Aldís Schram. Fjórar konur stíga fram í Stundinni í dag og lýsa kynferðislegri áreitni Jóns Baldvins.
Þá hefur fjöldi kvenna gengið í lokaðan MeToo hóp á Facebook þar sem fleiri sögum hefur verið deilt.
Nýlegasta atvikið mun hafa átt sér stað á Spáni í júní 2018, að loknum leik Íslands og Argentínu á HM í knattspyrnu. Segir Carmen Jóhannsdóttir að Jón Baldvin hafi áreitt sig kynferðislega á heimili hans og Bryndísar Schram, eiginkonu hans, í bænum Salobreña í Andalúsíu.
Elsta atvikið sem er lýst átti sér stað árið 1967 þegar Jón Baldvin var kennari í Hagaskóla. Þolendur meintrar áreitni hans og nemendur við skólann, Matthildur Kristmannsdóttir og María Alexandersdóttir, voru á bilinu 13 og 14 ára.
Guðrún Harðardóttir, sem áður steig fram í viðtali 2012, lýsir tilraunum Jóns Baldvins til að kyssa sig á Ítalíu þegar hún var táningur og næturheimsóknum hans í herbergi hennar. Fleiri konur lýsa sams konar heimsóknum, að Jón Baldvin hafi birst við rúm þeirra að nóttu til. Ein slíkra heimsókna mun hafa átt sér stað í febrúar 1975, þegar hann fagnaði jómfrúarræðu sinni á Alþingi.
Framvísar læknisvottorði
Dóttir Jóns Baldvins, Aldís Schram, birtir reynslusögu sína á fésbók í dag og birtir um leið vottorð frá geðlækni um heilbrigði sitt, en fjölskylda hennar hafði sakað hana um að ljúga upp ásökunum gegn föður sínum og vera ekki heil á geðsmunum.
Aldís greinir meðal annars frá minningum úr bernsku og síðar er hún dvaldi fullorðin hjá foreldrum sínum.
„Um miðja nótt, á Miklubraut 68, líkast til 5 ára gömul, vaknaði ég í rúmi foreldranna – þar sem ég átti ekkert rúm, við háværa tónlist og drykkjulæti inni í stofu.
Ég, sem svaf nakin – að fyrirskipan móðurinnar, klæddi mig og gekk inn í stofu, þar sem ég sá hana, hálfnakta, dansa upp á borði við mikinn fögnuð föðurins og hinna karlanna og sagði:
„Ég er lítið barn sem þarf að sofa. Viljið þið vera svo góð að hætta að hafa svona hátt?“
Jón Baldvin Hannibalsson gekk þá til mín, settist á hækjur sér gegnt mér, horfði í augu mér, kveikti á vindli, sogaði inn reyknum og púaði framan í mig (móður minni til kátínu).
Og þá hugsaði ég með mér: „Voðalega á ég ljótan pabba (en hitt vissi ég að hin svokallaða mamma mín væri vond).“
Það var svo ekki fyrr en aðfararnótt föstudagsins langa, þann 29. apríl, árið 2002, úti í Washington, þá ég vaknaði (sem oftar) um miðja nótt (nánar tiltekið klukkan þrjú) við það að Jón Baldvin Hannibalsson sat uppi rúmi hjá mér, að það rifjaðist upp fyrir mér að hann hafði þarna á Miklubrautinni (þar sem ég bjó þegar ég var 5 til 6 ára) gefið mér verklega kennslu í sjálfsfróun.“
Þá greinir Hrafn Jökulsson, fv. varaþingmaður Alþýðuflokksins og ritstjóri Alþýðublaðsins í formannstíð Jóns Baldvins, frá því að nemandi í Hagaskóla hafi greint sér frá óviðeigandi framkomu Jóns þegar hann var kennari þar.
„Ég þekki konu, sem barnung var nemandi JBH í Hagaskóla. Hún var svo sannarlega ekki geðveik, og ég hefði trúað henni samt. Stálgreind (einsog reyndar margir sem eiga við geðsjúkdóma að stríða, þótt sjálf væri hún fullfrísk á geði), bráðskemmtileg og með báða fætur hér í veruleikanum okkar. Vinnur og hefur í áraraðir unnið við háskóla, einkum við að hjálpa öðrum. Hún sagði mér að kennarinn — JBH — hefði mjög tíðkað að skrifa völdum barnungum stúlkum í bekknum ,,ástarbréf“ með tillögum um hvernig fylgja mætti þeirri ,,ást“ eftir. Því miður heyrði ég þetta ekki fyrren löngu eftir að pólitískri samleið okkar JBH lauk. Þá hefði orðið fátt um kveðjur. Síðan átti margt eftir að koma í ljós. — Áfram Aldís,“ segir Hrafn.
Viljinn hefur óskað eftir viðbrögðum Jóns Baldvins við þessum ásökunum, en hann hefur ekki brugðist við því, enn sem komið er. Í næsta mánuði kemur út bók eftir hann í tilefni áttræðisafmælis hans.