Einræðisstjórn sósíalista riðar til falls í Venesúela

Manduro forseti Venesúela.

Nicolas Maduro, einræðisherra í Venesúela, berst fyrir eigin völdum með hótunum í garð andstæðinga heima fyrir og ríkjanna sem styðja þá. Svo virðist sem hann hafi ekki áttað sig á frumkvæðinu af hálfu Juans Guaidos þingforseta sem lýsti sig forseta til bráðabirgða miðvikudaginn 23. janúar.

Margt þykir benda til að tök Maduros á her og lögreglu séu að linast og þar með verði dagar hans sem stjórnanda Venesúela í anda sósíalisma taldir.
Maduro misbeitti forsetavaldi sínu árið 2017 og einnig hæstarétti til að lýsa þjóðkjörið þing vanhæft eftir að stjórnarandstæðingar fengu þar meirihluta. Í stað þjóðþingsins kom Maduro á fót stjórnlagaþingi til að semja nýja stjórnarskrá.

Stjórnarandstæðingar tóku ekki þátt í kosningum til stjórnlagaþingsins í júlí 2017. Þeir sátu áfram í meirihluta á þjóðþinginu og neituðu að loka því. Miðvikudagurinn 23. janúar lýsti Juan Guaido, forseti þingsins, sjálfan sig forseta til bráðabirgða með vísan til stjórnarskrárinnar. Þar með eru tveir forsetar, tveir æðstu dómstólar og tvö þing í Venesúela.

Maduro telur að Bandaríkjamenn standi að baki „valdaráni“ Guaidos en Bandaríkjastjórn og ríkisstjórnir nokkurra fleiri landa, þ. á m. Kanada og Danmerkur, hafa viðurkennt bráðabirgðastjórn Guaidos.

Stjórnarandstaðan beitti sér fyrir fjöldamótmælum 23. janúar til að minnast þess að þann dag árið 1958 leiddu mótmæli gegn harðstjóra þess tíma, Perez Jimenez, til afsagnar hans. Stjórnarandstaðan telur að staðan nú sé sú sama, hundruð þúsunda manna komu saman til að mótmæla Maduro á götum höfuðborgarinnar Caracas og í fleiri borgum. Hann er rúinn öllu trausti og leitar skjóls hjá hernum. Á alþjóðavettvangi styðja Rússar og Kínverjar Maduro.

Þótt almenningur hafi fjölmennt til stuðnings Guaido tekur forysta hersins afstöðu með Maduro.

Guaido hefur lofað þeim hermönnum sakaruppgjöf sem leggja þeim lið sem vilja fella Maduro og stjórn hans. Þetta skref hans markar að ýmissa dómi þáttaskil í valdabaráttunni í Venesúela. Þar hefur annar aðili ekki mátt minnast á eftirgjöf gagnvart hinum.

Vladimir Padrino varnarmálaráðherra sagði á Twitter: „Hermenn föðurlandsins samþykkja ekki forseta sem er troðið í embætti í skugga óljósra hagsmuna.“

Maduro hefur biðlað til hersins með því að setja herforingja í lykilembætti ríkisstjórnarinnar og ríkisolíufélagsins. Venesúela ræður yfir mestu óunnu olíulindum í Suður-Ameríku og jafnvel öllum heiminum.

Maduro og hans menn í röðum chavista segjast standa frammi fyrir „valdaránstilraun fasista“. Þeir hafa slitið stjórnmálasamband við Bandaríkin en njóta eindregins stuðnings frá Kúbu. Andrés Manuel Lopez Obrador, vinstrisinnaður forseti Mexíkó, gaf til kynna að hann styddi sósíalista í Venesúela sem væru „kjörnir í samræmi við stjórnarskrána“.

Evo Morales, sósíalískur forseti Bolivíu, styður einnig Maduro og sömu sögu er að segja um Recep Erdogan, forseta Tyrklands, sem hringdi fimmtudaginn 24. febrúar „í bróður minn Maduro“ til að óska honum velfarnaðar.

Maduro gaf bandarískum stjórnarerindrekum 72 klst. til að yfirgefa Venesúela. Stjórnvöld í Washington telja hins vegar að Nicolas Maduro, fyrrv. forseti, hafi ekki lögmætt umboð til að reka bandaríska sendiráðsmenn úr landi. Donald Trump forseti segir að „allir kostir“ séu til skoðunar grípi Nicolas Maduro til vopna gegn mótmælendum.

Nicolas Maduro hefur stjórnað Venesúela síðan hann sigraði naumlega í umdeildum kosningum árið 2013 eftir andlát leiðtoga hans Hugos Chavez. Maduro hefur síðan hert tök sín á lykil-stofnunum ríkisins: hæstarétti, hernum og ríkisolíufyrirtækinu PDVSA. Í stjórnartíð hans hefur orðið efnahagshrun í Venesúela og milljónir manna flúið örbirgðina. Stjórn hans býr við vestrænar refsiaðgerðir.

Í maí 2018 hófst annað sex ára kjörtímabil hann að loknum kosningum sem fóru fram á þann veg að stjórnarandstæðingar tóku ekki þátt í þeim.
Juan Guaido (35 ára) er einn af því sem stofnuðu flokkinn Vilja almennings, aðgerðasinnaðan flokk innan hreyfingar lýðræðissinna (MUD) sem er einskonar regnhlíf yfir um 12 stjórnarandstöðuflokka sem hafa haft undirtökin á þjóðþingi Venesúela síðan 2015. Hann er forseti þingsins.

Hann var lítt þekktur utan raða náinna samstarfsmanna þar til hann var kjörinn þingforseti skömmu eftir áramót. Fyrsta verk hans var að hvetja þingið til að lýsa stjórn Maduros „ólögmæta“ og lýsa yfir vilja til að koma á bráðabirgðastjórn sem boðaði til kosninga og endurvekti lýðræði í landinu.

Guaido komst á toppinn eftir að forverar hans í stjórnarandstöðunni höfðu verið fangelsaðir, settir í stofufangelsi eða flúið land. Svo virðist sem frumkvæði Guaidos hafi komið Maduro í opna skjöldu og einangrað hann meira en áður var.

Af vardberg.is, birt með leyfi.