Eins og nammibarinn í Hagkaup: Ekkert gert fyrir ferðaþjónustuna

„Þessi aðgerðapakki veldur mér vonbrigðum. Mesta höggið vegna Covid-19 er á ferðaþjónustuna. Þar er algjört tekjuhrun,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður og einn eigenda ferðaþjónustufyrirtækisins Gray Line, í færslu á Baklandi ferðaþjónustunnar á fésbókinni í kvöld.

Þórir kveðst miður sín yfir stöðu mála og bætir við:

Þórir Garðarsson.

„Ef ferðaþjónustan á að vera til staðar þegar ferðamenn koma loksins aftur, þá þarf að halda í henni lífi og frysta lánagreiðslur. Brúarlánin duga ekki, því að bankarnir vilja enga áhættu taka af því að lána tekjulausum fyrirtækjum.

Þessir tveir aðgerðapakkar ríkisstjórnarinnar gagnast stærsta útflutningsatvinnuvegi þjóðarinnar lítið sem ekkert. Þeir taka ekki á því stóra viðfangsefni að halda ferðaþjónustunni á lífi meðan farsóttin gengur yfir.

Nýjasti pakkinn lítur meira út eins og nammibarinn í Hagkaup, sitt lítið af hverju sem ráðuneytin og ríkisstofnanirnar geta úthlutað.“