„Óveðrið sem gekk yfir landið í vikunni minnti okkur illilega á hvað maðurinn á sér lítils gagnvart náttúruöflunum. Veðrið dró fram fram veikleika í kerfum okkar, eitthvað sem við verðum að bregðast við hratt og örugglega, bæði hvað varðar uppbyggingu og viðbúnað.“
Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og byggðamálaráðherra, í færslu á fésbókinni nú í morgun.
„Það er mikilvægt að það sé nægjanleg orka á hverjum stað. Það er nauðsynlegt að flutningskerfið sé þannig byggt upp að fólk geti treyst því og að einstaklingar geti ekki komið í veg fyrir lagningu raforkulína þegar líf og öryggi samborgaranna er í húfi.
Við verðum að fara vel yfir þann viðbúnað sem þarf að vera fyrir hendi, bæði hvað varðar raforkukerfið, þjónustulið Vegagerðarinnar og öryggi fjarskiptakerfisins. Það er hagsmunamál landsins alls en ekki síður stórkostlegt lífsgæðamál fyrir íbúa byggðanna.
Ríkisstjórnin tekur málin föstum tökum og ræðir ástandið á ríkisstjórnarfundi á morgun. Ég mun sem byggðamálaráðherra leggja alla áherslu á að allir íbúar landsins búi við öryggi,“ segir ráðherrann.