Eitt mikilvægasta hlutverk forseta Íslands að vera öryggisventill

Andstæðingar þriðja orkupakkans hafa rætt hann við forseta Íslands. Á myndinni eru Frosti Sigurjónsson, Haraldur Ólafsson, Guðni Th. Jóhannesson, Ásdís Helga Jóhannesdóttir og Styrmir Gunnarsson.

Ólíkt lagafrumvörpum þurfa ályktanir þingsins ekki staðfestingu forseta Íslands. En samningar við önnur ríki verða ekki gerðir án staðfestingar forsetans og sama á við breytingar á slíkum samningum.

Þetta segir Frosti Sigurjónsson, fv. þingmaður Framsóknarflokksins og einn af forystumönnum samtakanna Orkan okkar, sem berst gegn innleiðingu þriðja orkupakkans.

Í færslu á fésbókinni veltir Frosti upp stöðu forseta Íslands gagnvart innleiðingunni, en margir hafa velt því upp hvort hann geti neitað að staðfesta hana líkt og um lagasetningu væri að ræða. Á það hefur verið bent að svo sé ekki, þar sem um þingsályktun sé að ræða, ekki lagafrumvarp.

„Þriðji orkupakkinn verður því ekki hluti af EES samningnum án staðfestingar forsetans. Skv. venju skrifar utanríkisráðherra undir samninga við erlend ríki ásamt forsetanum.

Verði þingsályktunin um orkupakkann samþykkt af Alþingi fær ríkisstjórn heimild til að setja orkupakkann inn í EES samninginn. Ríkisstjórnin getur nýtt þá heimild eða ekki. Nýti hún heimildina þarf einnig undirskrift forsetans svo breyting á EES samningnum taki gildi.

Forsetinn þiggur vald sitt frá þjóðinni en ekki ríkisstjórninni og gæti því neitað að skrifa undir sjái hann ástæður til þess t.d. telji hann vafa á að orkupakkinn samrýmist stjórnarskrá, að pakkinn skaði þjóðarhagsmuni eða kjósendur séu almennt á móti pakkanum. Það er eitt mikilvægasta hlutverk forseta Íslands að vera öryggisventill til að fyrirbyggja óafturkræft tjón þegar stjórnvöld og Alþingi gera mistök. Það gerði Ólafur Ragnar Grímsson í Icesave málinu,“ segir Frosti Sigurjónsson.