Eitt rangt orð og þú ert dauðans matur

Manni má aldrei skrika fótur í umræðunni — ég meina, eitt rangt orð og þú ert dauðans matur,“ er meðal þess sem danski stórleikarinn og hjartaknúsarinn Mads Mikkelsen lætur hafa eftir sér í viðtali Guardian, þar sem rætt er við hann um myndina Heimskautið (e. Artic), sem tekin upp að hluta á Íslandi og verður frumsýnd í Bretlandi á næstu dögum.

„Við erum ekki að gera kvikmynd um loftslagsbreytingar. Við erum að gera kvikmynd um mannkynið,“ er á meðal þess sem hann sagði í viðtalinu, en ekki verður betur séð en að Mikkelsen hafi efasemdir um það hvernig loftslagsmálin eru rædd og kynnt til sögunnar af áhrifafólki og stjórnvöldum.

Árið 2010 lék hann í myndbandi þar sem kallað var eftir viðbrögðum almennings og stjórnvalda um aðgerðir, en nú kveður við örlítið annan tón hjá leikaranum. „Ég efast ekki um að loftslagsbreytingar eigi sér stað, en ég veit það fyrir víst að þannig hefur það alltaf verið.“

Í því samhengi fór hann m.a. yfir örlög vinar síns, leikarans Matt Damon, sem lenti í hakkavélinni árið 2017 fyrir að segja eitthvað á þá leið að ásakanir um kynferðisofbeldi skyldu vera meðhöndlaðar á „rófi hegðunar“, og fyrir að lýsa yfir áhyggjum af „hneykslunarmenningunni.“

Mikkelsen sagði vin sinn Damon vera „mest rétthugsandi mann í heimi. Hann sagði eitthvað alveg rökrétt og honum var bara slátrað. Þannig að umræðuhefðin er ekki lengur heilbrigð.“