Ekkert barn myndi klára skólagöngu í sínu hverfi í norðanverðum Grafarvogi

FRÉTTASKÝRING: Í byrjun septembermánaðar kom út skýrsla frá Innri Endurskoðun Reykjavíkurborgar. Eftir að skýrslan kom út virðist sem frekari stokkun á skólastarfi í Grafarvogi sé í bígerð. 

Þann 6. september síðastliðinn birtist svo frétt á vef RÚV þar sem Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, sagði að veturinn í ár yrði líklega síðasti veturinn þar sem Korpuskóli í Grafarvogi yrði starfræktur í núverandi mynd og sé það niðurstaða skýrslu Innri Endurskoðunnar.

Í skýrslunni segir að hægt yrði að ná talsverðri hagræðingu með því að sameina starfsstöðvar Kelduskóla, og reka framvegis eina starfsstöð í Vík, en loka þeirri í Korpu. Korpuskóli hlaut viðurkenningu á öskudagsráðstefnu Reykjavíkurborgar fyrir frammúrskarandi skólastarf.

Kelduskóli er í tveimur húsnæðum, einu staðsettu í Víkurhverfi (Kelduskóli – Vík) og einu í Staðarhverfi (Kelduskóli – Korpa). Eru plön eins og stendur á þann veg að loka Kelduskóla Korpu og breyta Kelduskóla Vík í unglingaskóla fyrir allan Norðanverðan Grafarvog. Það þýðir að yngstu börnin í Staða- og Víkurhverfi fara yfir í skólann í Engjahverfi og allir unglingar í Staða-, Víkur-, Engja- og Borgarhverfi fara yfir í Kelduskóla Vík. 

„Foreldrar eru gapandi og pirraðir. Það er sífellt verið að hræra í skólunum í Grafarvogi, þau í borgarstjórn fá nýja hugmynd á tveggja ára fresti sem virkar aldrei og hugmyndirnar verða í raun verri í hvert skipti. Ekkert barn myndi klára skólagöngu í sínu hverfi í öllum norðanverðum Grafarvogi.“ Segir Sævar Reykjalín, formaður foreldrafélags Kelduskóla.

Skúli Þór Helgason

Í skýrslu Innri Endurskoðunar stendur einnig eftirfarandi : 

„Meginniðurstaða þessarar skýrslu er að mismunandi skilningur virðist vera á milli skólastjórnenda og skóla- og frístundasviðs annars vegar og fjárveitingarvalds borgarinnar hins vegar um hvað er nauðsynlegt fjármagn til reksturs á grunnskólum borgarinnar…“

Borgarfulltrúi Sjálftæðisflokksins, Valgerður Sigurðardóttir, hefur lýst yfir óánægju sinni vegna ummæla Skúla Helgasonar.

Valgerður segir að dapurlegt sé að í skýrslunni sé lagt til að skera frekar niður þá þjónustu sem verið er að veita Reykvískum börnum og loka og sameina skóla til að rétta við fjárhagshalla skóla- og frístundasviðs. 

Valgerður Sigurðardóttir

„Reykjavíkurborg verður að gera betur, það er niðurstaða skýrslu innri endurskoðunar, þeir sem eru í meirihluta verða að gera betur. Það er meirihlutinn sem ber ábyrgð á slæmri fjárhagslegri stöðu grunnskóla Reykjavíkurborgar. Mikill skortur er á á fjármagni til skólana sem veldur því að þeir ná ekki að reka sig réttu megin við núllið. Eigum við ekki fyrst að byrja á því að leiðrétta þann fjárhagshalla sem er á skóla- og frístundasviði áður en við förum í frekari niðurskurð á sviðinu? “ 

Valgerður bætti við að það væri óásættanlegt að formaður skóla- og frístundaráðs, sem jafnramt sé borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hafi í raun verið að segja upp starfsfólki skólans í umræddri frétt með því að segja að líklega verði þetta síðasti veturinn sem Korpuskóli væri starfræktur í núverandi mynd. 

Korpuskóli / Mynd : Reykjavik.is

Á borgarstjórnarfundi þann 17. september skiptust þau Valgerður og Skúli á orðum varðandi málið er rætt var um skýrslu Innri Endurskoðunnar um úthlutun fjárhagsramma og rekstur. 

„Foreldrum voru kynntar þessar hugmyndir síðasta haust og brugðust mjög ókvæða við, þá voru hugmyndirnar kynntar þar sem þær átti að göfga og auka gæði náms og skólastarfsins. Nú er hins vegar komið hér fram hvers vegna komið var með þessar hugmyndir, þetta eru einfaldlega niðurskurðarhugmyndir, og það hugnast foreldrum illa sem búa í þessum hverfum„Ég get ekki ímyndað mér hvernig ástandið er á kennaraskrifstofunni eða það gríðarlega góða faglega starf sem nú er sett í uppnám með þessum ummælum.“ Sagði Valgerður á borgarstjórnarfundinum.

Svar Skúla Helgasonar við þeim ummælum hljóðaði svo : 

„Skýrslan er ítarleg og fer yfir málið frá mörgum hliðum. Engin ákvörðun hefur verið tekin varðandi leið í þessu máli. Hinn fjárhagslegi þáttur málsins sem er ein vídd í málinu er ekki nýr, það kemur fram í skýrslunni og ég treysti því að allir hafi kynnt sér hana, þar kemur þessi tala fram, 195. milljónir króna á ársgrundvelli. Það eru margir fleiri þættir sem skipta máli hins vegar, það er fjölbreytnin í nemendahópnum. Það eru hinir félagslegu þættir sem vega að mörgu leyti ennþá þyngra heldur en krónurnar í buddunni. Við erum með skóla sem er ekki bara langfámennastur í borginni, við höfum engin dæmi um skóla sem er svona fámennur á öllu höfuðborgarsvæðinu. Meðalstærð grunnskóla á Íslandi í kringum 450 börn og þarna eru núna innan við 60 börn. Það er eginn að hlaupa neitt til, við höfum fylgst með þróunnini í mörg á og vonast til þess að við myndum sjá nemendafjöldann fara upp en að hefur því miður ekki gerst. Það er ekki ábyrgð stjórnvalds sem bregst ekki við þegar staðan er orðin þessi að við gætum verið að gera betur fyrir viðkomandi börn og fara betur með fjármuni borgarinnar í leiðinni.“ 

Svaraði Valgerður þá : 

„Bara svo við höldum því til haga þá búa í þessu hverfi um 140 börn sem eru á skólaaldri, þið einfaldlega hafið búið til þessa þróun með því að taka þau úr hverfinu og flytja þau yfir í annan skóla. Það er mjög mikilvægt að því sé haldið til haga í þessari umræðu allri saman. Þannig að ég legg því til að þið getið slitið í sundur þær sameiningar sem komu hroðalega illa út eins og var kynnt í skýrslu árið 2012 og börnin fá að þá bara að ganga í sinn heimaskóla aftur“.


Sagan að baki flutninga nemenda úr hverfi Korpu yfir í skóla í Vík er á þennan veg: 

Vorið 2017 voru foreldrar barna sem áttu að fara í 7. bekk boðuð á fund og þeim tilkynnt að 7. bekkur fengi ekki lengur kennslu í Kelduskóla í Korpu og þau ættu að fara yfir í Kelduskóla í Vík. Mótmæltu foreldrar þessu harðlega. Foreldrar barna sem áttu að  fara í 1. bekk voru einnig boðaðir á fund þar sem reynt var að fá þá til að flytja börnin sín yfir í Vík. Ástæðan sem var tilgreind var sú að litlar líkur væru á að skólastjóri gæti ráðið kennara fyrir bekkinn og því best að börnin færu yfir strax. Að sögn foreldra urðu einhverjir foreldrar hræddir um að börnin þeirra fengju ekki kennslu og sendu börnin sín yfir. Í dag eru því nemendur í 8., 9., 10., og hluti 3. bekkjar í Vík. 

Kelduskóli , Vík / Mynd : Reykjavik.is

„Það eru mun fleiri börn á skólaaldri í hverfinu og ef ekki hefði verið ráðist í allar þessar breytingar væru að minnsta kosti 120 nemendur í skólanum. Í þessu samhengi er rétt að rifja upp að skólinn var byggður fyrir 170 nemendur og á fyrstu árunum eftir að hann var byggður voru yfir 250 nemendur í honum“. Segir Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, íbúi og móðir í Staðahverfi. 


Nú hefur formaður skóla- og frístundaráðs sagt að ekki eigi að segja upp kennurum.

Þá kemur upp sú spurning : Í hverju felst þá sparnaðurinn ?

„Þrátt fyrir ítrekaðar óskir hafa fulltrúar meirihluta borgarstjórnar ekki viljað/getað lagt fram sundurliðun á sparnaði í tengslum við allar þessar æfingar. Við sem íbúar og útsvarsgreiðendur viljum fá að vita hvað það kostar að reka skólana í Grafarvogi og hver meintur sparnaður er af því að loka Korpuskóla í Staðahverfi. Einnig viljum við fá að vita hvaða hugmyndir eru varðandi nýtingu á húsnæðinu í Korpu. Formaður skóla- og frístundaráðs hefur sagt að ekki eigi að segja upp kennurum, hvaðan á þá sparnaðurinn að koma?“ Spyr Jóhanna Vigdís.

„Deiliskipulag sem og aðalskipulag gerir ráð fyrir skóla í hverfinu. Meðan það er í gildi má bara vera skólarekstur í húsinu. Fyrir utan það að íbúar munu sækja rétt sinn til dómstóla um leið ef skólinn verður tekinn. Þannig að á meðan yrði húsnæðið þá væntanlega að standa autt og þá þarf að greiða af því eins og af öðru húsnæði. Það hefur líka verið tilkynnt að engum starfsmanni verði sagt upp þannig að ég veit ekki hvar þessi sparnaður á að nást?“ Spyr Sævar Reykjalín.

Bendir Sævar einnig á að það hafi þegar komið fram tvær mögulegar lausnir. Sú fyrsta sé að sameina skólann og leikskólann í hverfinu í húsnæði Kelduskóla – Korpu, eftir svokölluðu Krikaskólamódeli. 

„Formaður skóla- og frístundaráðs hefur ekki viljað ljá máls á þeirri lausn fyrir Staðahverfi þar sem hann henti ekki módeli Reykjavíkur en svo núna er ætlunin að byggja skóla eftir slíku módeli í Skerjafirði, þar sem formaðurinn býr. Það eitt og sér er rosalegur tvískinnungur. Svo hefur Hjallastefnan reynt að fá formanninn Skúla Helgason og Helga Grímsson til þess að skoða möguleikann á að reka skóla í hverfinu og aftur þvert nei. Það er eins og megi ekki gera neitt annað en að loka skólanum.“ sjá frétt Fréttablaðsins.


Ekki er þetta í fyrsta skipti þar sem borgarstjórn ætlar sér í sameiningar skóla í hverfinu. 

Í byrjun árs 2011 fór þáverandi borgarstjórn á milli hverfa til þess að boða sameiningu skóla í Grafarvogi, Breiðholti og Álftamýri. Voru foreldrar mjög ósáttir með þær áætlanir og fjölmenntu á fund sem haldinn var í Rimaskóla í mars 2011. 

https://www.ruv.is/frett/sameiningu-skolanna-hafnad

Borgin tilnefndi Björn Blöndal sem fundarstjóra en það hugnaðist foreldrum ekki svo þeir tóku fundinn yfir og kusu nýjan fundarstjóra til þess að koma sínum áhyggjum á framfæri. Allir sem einn voru á móti þessum breytingum en að sögn þeirra var ekki á þær hlustað. Hætt var við sameiningar í Breiðholti en sameiningar skóla í Grafarvogi urðu að veruleika. 

Í Grafarvogi urði tvær sameiningar, Korpuskóli og Víkurskóli urðu að Kelduskóla og Engjaskóli og Borgarskóli urðu að Vættaskóla. Nemendur í unglingadeildum Húsaskóla og Hamraskóla fluttust yfir í Foldaskóla. Nýju skólarnir tóku til starfa þann 1. janúar 2012. 

Fljótlega eftir sameininguna var gerð könnun meðal starfsmanna um hvernig þeim fannst sameining hafa tekist og þar fékk hún falleinkunn. Lýstu foreldar og nemendur einnig óánægju sinni með þá röskun sem varð. 

Má hér sjá skýrslu um mat á síðustu sameiningu og er ljóst að samkvæmt skýrslu þessari var hún alls ekki gallalaus. Skýrslan sýnir að engar hagræðingar fólust í sameiningum og sjá foreldrar ekki afhverju nú ætti að vera annað á boðstólnum.


„Alltaf hefur verið talað um hversu gott það sé fyrir börnin að vera í stórum skóla, en Borgin hefur aldrei getað sýnt nein gögn sem styðja það þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. Fljótlega sá maður í hvað stefndi í Korpuskóla (Kelduskóla Korpu) því kennarar voru fluttir yfir í Vík og starfsemin minnkaði í Korpu. Vorið 2017 boðaði skólastjóri Kelduskóla foreldra barna fædd 2005, sem áttu að fara í 7. Bekk, á fund þar sem átti að ræða þær hugmundir að 7. bekk yrði kennt í Vík um haustið þar sem þau fengju miklu betri kennslu í stærri bekk og fengju sérgreinakennara.  Foreldar voru allir sem einn mjög á móti þessari tillögu en ekki var hlustað á þá. Þegar börnin mættu í skólann um haustið kom í ljós að engir sérkennarar voru til staðar og kennarinn sem þau fengu var ekki að standa sig. Það endaði með því að hann lét af störfum í nóvember, þá tók námsráðgjafinn við og það gekk ágætlega út árið en þá var ráðinn þriðji kennarinn sem kláraði  skólaárið.  Þetta ár kom því illa út bæði námslega og andlega fyrir börnin.

Nú þegar loksins fer að ganga vel hjá bekknum þá fáum við þær fréttir að það standi til að gera enn einar breytingarnar í skólanum þ.e. að sameina Kelduskóla og Vættaskóla sem þýðir að barnið mitt þarf að fara í þriðja skólann og væntanlega að skipta enn og aftur um bekk. Eitthvað sem það hefur ekki áhuga á loksins þegar farið er að ganga vel hjá bekknum. Þar sem ég er búin að eiga þrjú börn í unglingadeildinni í Kelduskóla í Vík er ég vel í stakk búin að dæma um að það sé ekki gott að hafa börn í skóla í öðru hverfi.  Mikil forföll kennara í Vík og engin aðstaða fyrir börnin okkar að bíða þar innandyra eftir næsta tíma.  Þau velja því frekar að eyða tímanum í labb heim og eru varla komin inn úr dyrunum þegar þau þurfa að snúa aftur í skólann. Félagsmiðstöðvar í öðru hverfi er heldur ekki æskilegt fyrirkomulag þar sem engar strætóferðið eru milli hverfa og mörg þeirra nenna ekki að ganga þessa löngu leið í slæmu veðri eins og oft er. Á veturna eru göngustígar ruddir seint og illa og einhvern veginn virðist skipulagið innan Borgarinnar vera á þann veg að ávallt skuli rutt síðast í Staðahverfi.“  Segir Jóhanna Vigdís.

„Þetta mun þýða að öll börn í Staðahverfi sækja skóla út fyrir sitt hverfi og yngstubörnin í Víkurhverfi sækja skóla utan síns hverfis. Þannig að skólarnir hætta að vera hjartað í hverfinu eins og verið hefur. Samgöngur milli hverfa eru engar og strætó gengur ekki á milli. Að auki ætlar núverandi meirihluti að leggja niður skólaakstur. Það sér hver heilvita maður að þetta gengur ekki upp.“  Segir Sævar Reykjalín.

Þessar sameiningar þýða að foreldrar geta þurft að hafa börnin sín í þremur skólum, í þremur hverfum. Eitt barn í leikskóla í Staðahverfi, eitt í yngri barnaskóla í Engjahverfi og síðan unglinginn í Víkurhverfi. Þeir vilja líka taka af skólaakstur og bjóða börnum sem búa lengra en 1,5 km frá skóla upp á umhverfisvænan skólaakstur, sem þýðir að börn upp í 4 bekk fá skólarútu en hin þyrftu að taka strætó sem gengur aðeins á hálftíma fresti og gengur ekki í Víkurhverfi.  

Við síðustu sameiningar var boðað að bætt yrði úr samgöngum. Að sögn foreldra hefur það ekki gerst, börn þurfi til dæmis að nota undirgöng við Egilshöll sem er langt úr leið í skólann.  Engar gangbrautir séu á leið í skólann og engin lýsing á stíg sem þau nota fyrir utan að hann sé ruddur  seint og illa á veturna. Eru foreldrar ekki að sjá að þeir geti látið 6 ára gömul börn ganga ein heim á milli hverfa úr skóla og frístundum. Í dag séu mörg börn sem ganga sjálf heim þar sem eldri systkini eru heima til að taka á móti þeim.Þetta gæti orðið til þess að foreldrar verði að minnka við sig vinnu til að geta sótt börn sín á frístundaheimili. Miðað við ástandið í umferðamálum sé erfitt fyrir fólk að stunda 100% vinnu niðri í bæ ef það þarf að skutla börnum sínum í annað hverfi í skólann og síðan að ná í þau eftir vinnu.


„Foreldrar, íbúar og börn munu ekki láta bjóða sér skerta þjónustu, lélegri menntun og óöryggi fyrir börnin. Við munum svara fyrir okkur,“ segir Sævar Reykjalín.