Ekkert nýtt að menn langi að hafa pálmatré hér á landi og ganga um í pólóbol

Hugmyndir um glerhjúpa og pálmatré á norðlægari slóðum er ekki ný, en þetta er Schönbrunner Palmenhaus í Vínarborg, sem opnaði árið 1882.

„Það kom smá pálmatrjáatímabil, sérstaklega á seinni hluta níunda áratugarins”, segir Stefán Pálsson, sagnfræðingur í samtali við Viljann, sem hafði samband við hann til að rifja upp sögu pálmatrjánna á Íslandi.

„Þá varð bylgja í að reisa stórar byggingar undir gleri, Leifsstöð, Kringluna, Eiðistorg, Mjóddina o.s.fr.v. þegar Íslendingar fengu tröllatrú á að við getum byggt yfir okkur til að losna við veturinn”, segir Stefán, sem rifjar upp að uppúr miðbiki síðustu aldar hafi menn séð framtíðina fyrir sér þannig að heilu borgirnar yrðu jafnvel yfirbyggðar.

„Á þessum tíma voru kúnstugar umræður um að byggja yfir Laugaveginn til að mæta samkeppni frá Kringlunni og menn voru sannfærðir um að Laugavegurinn væri búinn að vera, þar sem enginn mundi vilja versla utandyra lengur, í slabbi og kulda. Menn voru skotnir í hugmyndinni um að hafa suðrænar plöntur og geta bara gengið um í pólóbol allt árið.” 

Sett voru pálmatré í Leifsstöð, og ýmis kvikindi bárust með, eðlur fundust t.d. þegar húsið var tilbúið. En þetta fór ekki vel, pálmarnir eru horfnir og það sama gerðist í Perlunni. Því þó það sé stofuhiti, þá er ekki þar með sagt að það séu kjöraðstæður fyrir ýmsar trjátegundir.

Stefán sagnfræðingur Pálsson.

„Í Perlunni voru settir upp fokdýrir pálmar, en það gleymdist að gera ráð fyrir að þeir eru með mjög miklar rætur, þetta eru nefnilega engar pottaplöntur. Í Kringlunni var pálmunum, sem voru fluttir inn frá Kaliforníu, að lokum skipt út fyrir plasttré”, rifjar Stefán upp. 

Perlan átti að vera vetrargarður

Perlan er gjarnan tengd við veitingahús sem snýst í hringi, en þegar verið var að kynna verkefnið, var mun meira talað um hana sem vetrargarð. Í stóra rýminu á neðri hæðinni, sem hefur verið notað fyrir bóka- og geisladiskasölu, átti fólk að geta labbað inn í einhverskonar suðræna paradís, og kynda átti með hitaveitunni.

„Þessar hugmyndir hafa komið upp oft í sögunni, því við ættum nóg af heitu vatni og þessvegna gætum við bara verið með allt. Að því leyti má segja að pálmahugmyndin sé gamalt stef.” 

Hugmyndin sé kannski orðin sígild, gangi aftur og aftur. Mögulega sé hún raunhæfari nú, í afmörkuðu gróðurhúsi, í lokuðu kerfi. Þrátt fyrir tæknilegar hindranir, takist kannski að tryggja aðstæður pálmatrjáa í þessu listaverki, þó það hafi misheppnast fram að þessu.

Stefán kveðst hrifinn af hugmyndinni, en bendir á að menn séu gjarnan til í að borga stofnkostnað, en oft verði vandamál þegar kemur að rekstri og viðhaldi. Dæmi um það séu Fyssa í Elliðaárdal sem hefur verið slökkt á í áratug, Strokkur í Öskjuhlíð sem sé löngu sofnaður og deilur Reykjavíkurborgar og Orkuveitunnar um rafmagnsreikninginn vegna Friðarsúlu Yoko Ono í Viðey. 

„Það sem er kannski öðruvísi núna er að ekki er verið að gera þetta af stolti og áhuga á jarðhitanum eins og áður, en listamaðurinn hefur nefnt aðra hluti nú sem innblástur. Þá sáu menn fyrir sér að við myndum lifa í einhverjum glerhvelfingum, svona veðurhjúp til að tryggja gott veður, bjart og huggulegt, en í dag finnst okkur það firrt og bilað.”