„Við höfum farið ítarlega yfir skráningarskýrslur okkar nokkur ár aftur í tímann og það er ekkert skráð sem bendir til þess að þetta sé raunin,“ segir Gestur Pétursson, forstjóri Elkem á Íslandi, sem rekur járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Viljinn spurði hann hvort rétt væri að lúsmý hefði fyrst borist til landsins fyrir fjórum árum með flutningagámum frá Kanada, fullum af trjákurli sem notað er sem kolefnisgjafi við járnblendið.
Í nágrenni verksmiðjunnar og víðar í Hvalfirði og Kjós ganga miklar sögur um að lúsmý hafi fyrst borist til landsins með þessum hætti. Gámar hafi verið opnaðir og sannkallað flugnaský hafi tekið á móti starfsmönnum verksmiðjunnar og þar með hafi flugan komist í íslenska náttúru.
Vitað er að fregnir bárust fyrst af lúsmýi um þetta leyti hér á landi og var það fyrst staðbundið við Hvalfjörðinn; við Hótel Glym og víðar í nágrenni og eins við Meðalfellsvatn og víðar í Kjós.
Gestur kom af fjöllum þegar Viljinn bar þetta undir hann og segir ekkert í gögnum fyrirtækisins benda til þess að þetta sé rétt. Hann segir að eitt sinn hafi sjaldgæf könguló fundist í slíkum gámi og það hafi verið skráð skilmerkilega og tilkynnt til réttra aðila. Ekkert sé að finna um flugur í miklu magni. Miklar kröfur séu gerðar um innflutt timbur sem notað sé í brennsluofnana, það megi til dæmis ekki vera með berki og sífellt meira sé keypt af innanlandsmarkaði.
Það hefur að líkindum ekki farið fram hjá neinum að lúsmý hefur verið óvenju áberandi það sem af er sumri. Lúsmý, sem virðist afar árásargjarnt og blóðþyrst um þessar mundir, leggst einkum á fólk í svefni og þarf lognstillur til að athafna sig. Náttúrufræðistofnun hefur bent á að vifta, sem heldur lofti á hreyfingu í svefnherberbergi, kunni að hjálpa. Ráðlegt er að hafa glugga lokaða og sofa í náttfötum. Að auki getur þéttriðið flugnanet í glugga komið sér vel í baráttunni við varginn.
Veldur rauðum hnúðum
Á vef Landlæknis segir að skordýrabit valdi oft rauðum hnúðum undir húðinni með tilheyrandi kláða og óþægindum. Mikilvægt sé að klóra ekki í húðina þar sem það geti aukið líkur á sýkingum. Stutt kæling dragi úr kláða.
Mild sterakrem draga jafnframt úr kláða og óþægindum en þau fást án lyfseðils í apótekum. Þeir sem fá ofnæmisviðbrögð, þar sem stærra svæði á húðinni í kringum bitið bólgið og aumt, geta tekið ofnæmislyf eins og lóritín eða histasín en þau fást einnig í apótekum án lyfseðils.
Skynsamlegt er að leita á heilsugæsluna ef einkenni lagast ekki á nokkrum dögum; ef bit eru í munni, hálsi, eða nálægt augum; ef þú færð flensueinkenni og bólgna eitla. Ef alvarlegri einkenni koma fram, eins og öndunarerfiðleikar, uppköst, hraður hjartsláttur, eða sviði og meðvitundarskerðing, kann að vera um bráðaofnæmi að ræða og þá skal leita strax á bráðamóttöku eða hringja í 112.
Jafnframt má lesa nánar um lúsmý á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands