Ekkert verður af aðkomu Icelandair að rekstri WOW

Icelandair Group hefur ákveðið að ekki muni verða af hugsanlegri aðkomu félagsins að rekstri flugfélagsins WOW air sem tilkynnt var um hinn 20. mars sl. Þar með hefur viðræðum á milli aðila verið slitið.

Þannig hljóðar stutt tilkynning sem send var síðdegis til Kauphallar Íslands, en fregna af viðræðunum hafði verið beðið með töluverðri eftirvæntingu.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2, að rekstur og fjárhagsstaða WOW air væri með þeim hætti að forsvarmenn Icelandair treystu sér ekki til að halda áfram með málið.

Hann sagðist vonast til þess að rekstur WOW air gangi áfram.

„Það er ekki gott fyrir íslenskt þjóðfélag ef stórt félag fer. WOW air er mikilvægt fyrir íslenska ferðaþjónustu en það er ekki í okkar höndum hvað gerist þar,“ sagði hann ennfremur.