Ekki fallist á tillögu Þórólfs um afnám valkvæðrar sóttkvíar –– vottorð tekin gild

Sóttvarnaráðstöfunum á landamærum Íslands verður fram haldið í óbreyttri mynd þar til 1. febrúar á næsta ári. Þetta var ákveðið á fundi ríkisstjórnar í morgun. Það þýðir að ekki var fallist á tillögu Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um að afnema val um sóttkví við komuna til landsins og beina öllum í tvöfalda skimun.

Þar var ennfremur tekin sú ákvörðun að frá og með 10. desember verði vottorð um að fólk hafi fengið COVID-19 og að sýking sé afstaðin tekin gild og veiti undanþágu frá þeim kröfum sem annars eru gerðar. Hingað til hefur sú afstaða ráðið för hjá sóttvarnayfirvöldum að engin samræmd nálgun sé hjá ríkjum Evrópu um slík vottorð og fjölmörg dæmi séu um að þau séu fölsuð og gangi kaupum og sölum.

Næsta ákvörðun um fyrirkomulag á landamærum verður tekin eigi síðar en 15. janúar.  

Ákvörðunin byggir m.a. á minnisblaði vinnuhóps heilbrigðisráðuneytisins um viðurkenningu vottorða og efnahagslegu mati starfshóps fjármála- og efnahagsráðuneytisins á tillögum að breyttum aðgerðum á landamærum.

Farþegar geta samkvæmt þessu áfram valið á milli þess að fara í tvær sýnatökur vegna COVID-19 með 5 daga sóttkví á milli þar til niðurstaða seinni sýnatöku liggur fyrir, eða sleppa sýnatöku og sitja í 14 daga sóttkví frá komunni til landsins.