Ekki faraldur sem gefur einstökum löndum tækifæri að setja sig á háan hest

Carl Bildt.

Fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, Carl Bildt, gagnrýnir framkomu og háttalag Anders Tegnell, sænska sóttvarnalæknisins og segir óæskilegt að koma fram og hrósa sigri yfir því sem nefnt hefur verið sænska leiðin í kórónuveirufaraldrinum á heimsvísu.

Í viðtali við Svenska Dagbladet tekur Bildt fram að umræðan um sænsku leiðina megi ekki virðast hrokafull í samanburði við viðbrögð annarra landa. Þetta sé ekki faraldur sem gefi einstökum löndum tækifæri að setja sig á háan hest.

Forsætisráðherrann fyrrverandi hefur áður viðrað skoðanir sínar í þessa veru á Twitter. Þann þriðja maí sl. skrifaði Bildt að ríkisstjórnin ætti að taka í taumana og hvetja Tegnell til að hætta að gagnrýna hvaða leiðir önnur lönd hafa farið.

Í viðtalinu staðhæfir Bildt að hefði hann verið forsætisráðherra í dag hefði hann lokað fyrir þverrifuna á Tegnell. Honum þætti slíkt ekki óviðeigandi og myndi ekki hika við það.

Sænski sóttvarnalæknirinn Anders Tegnell.

Þá gagnrýnir Bildt einnig skort á samvinnu landa sinna við Evrópusambandið í faraldrinum og telur þá óviljuga til samstarfs með öðrum þjóðum.

„Sænsk yfirvöld hafa ekki beint átt í frumkvæði í að vinna að einingu, og þá tek ég milt til orða. Ég hef verið að pirra mig á því að á blaðamannafundum séu fánar Evrópusambandsins hvergi sjáanlegir. En þegar netfundir við fulltrúa ESB eiga sér stað eru fánarnir settir upp. Svo eru þeir bara teknir niður aftur,“ segir Bildt í viðtalinu.

Anders Tegnell hafði fátt um gagnrýni Bildts að segja, þegar ummælin voru borin undir hann.

„Ég hef lítið um þetta að segja. Þetta er pólítík sem stjórnmálamenn verða þá að taka að sér að svara, sagði Tegnell í sjónvarpsviðtali við TV4.