Ekki heil brú í því að þrengja að ungu fólki með banni á 40 ára lánum

Gylfi Magnússon prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.

Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands og formaður bankaráðs Seðlabankans, varar mjög við áformum um að banna verðtryggð lán til lengri tíma en 25 ára. Segir hann erfitt að sjá einhvern ávinning fyrir nokkurn mann af því, sérstaklega ekki ungt fólk sem er að kaupa sitt fyrsta húsnæði.

Gylfi, sem er meðal umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra, bendir á að  ungt fólk hafi farið þessa lánaleið til þess að geta keypt með greiðslubyrði sem það réði við.

„Tökum dæmi, 25 ára gamalt par tekur 30 milljón króna lán til 40 ára til að kaupa sína fyrstu íbúð. Þá þarf að borga um 96 þús. á mánuði af láninu í hverjum mánuði miðað við þá vexti sem nú bjóðast (upphæðin hækkar svo með verðbólgu en á móti kemur að hver króna er minna virði svo að það breytir litlu). Þau verða þá búin að greiða niður lánið um það leyti sem þau fara á eftirlaun, sem hentar líklega ágætlega. Ef þau eru hins vegar neydd í 25 ára lán þá þarf að borga 132 þús. á mánuði (og ef þau eru neydd í óverðtryggt 25 ára lán þyrftu þau að borga 152 þús. á mánuði). Það er vitaskuld töluvert erfiðara og gæti jafnvel verið óviðráðanlegt,“ segir hann í færslu á fésbókinni.

„Höfum í huga að tekjur hækka almennt með aldri, fram að miðjum aldri, þannig að fólk á þrítugsaldri hefur líklega lágar tekjur og framundan eru, ef að líkum lætur, töluverð útgjöld vegna barneigna. Parið verður hins vegar búið að borga lánið um fimmtugt, þegar tekjur flestra eru nálægt hámarki og útgjöldin töluvert lægri, t.d. verður þá ólíklega verið að greiða mikið vegna barnaheimila. Það er ekki heil brú í því að þrengja að ungu fólki til að það hafi það betra þegar það verður miðaldra!,“ segir Gylfi Magnússon.