Ekki í boði að biðja fjöldann að hafa sig hægan

Á óvissutímum hljóta stjórnendur í atvinnulífi að vera reiðubúnir að leggja sjálfa sig undir, sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Viðskiptaþingi í dag.

Viðkvæm staða á vinnumarkaði setti svip sinn á umræður á Viðskiptaþingi, enda hafa margir miklar áhyggjur af því að stefni í hörð verkfallsátök.

„Að sýna ábyrgð í launastefnu. Að hugsa um heildina. Það skiptir máli að hlusta á það sem bæði verkalýðshreyfing og atvinnurekendur hafa sagt í þessum málum. Og það skiptir máli að sýna skilning í verki. Það er ekki í boði að biðja fjöldann að hafa sig hægan,“ sagði forsætisráðherra.

„Fólkið á lægstu laununum er ekki eitt að fara að bera ábyrgð á stöðugleikanum. Það er ekki þannig. Þannig að þegar við ræðum um samkeppnishæf laun stjórnenda þá leyfi ég mér að efast um að ekki sé hægt að fylla lausar stöður stjórnenda og forstjóra bæði á almennum og opinberum markaði þó að hóflegri launastefnu sé fylgt í raun og veru,“ sagði hún.

„Ef stjórnendur vilja vera leiðtogar þá hlusta þeir ekki aðeins á stjórnvöld heldur líka á samfélag sitt, enda eru þeir hluti af því sama samfélagi. Og þeir sýna skilning með því að sýna ábyrgð og ganga á undan með góðu fordæmi,“ bætti hún við.