Ekki lengur efasemdarmaður um þriðja orkupakkann

Brynjar Níelsson fv alþingismaður.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að uppnefni, eins og populistar, öfga-þjóðernishyggjumenn og einangrunarsinnar, gagnvart þeim sem eru á móti eða hafa efasemdir um innleiðingu 3ja orkupakkans, séu afskaplega hvimleið. Hann sé hins vegar sjálfur ekki lengur efasemdarmaður um innleiðingu hans.

Í færslu á fésbókinni í dag segist þingmaðurinn hafa átt samtöl við marga efasemdamenn og hann verði ekki var við þessi einkenni, enda allir þeirrar skoðunar að frjáls viðskipti milli þjóða sé mikilvægt hagsmunamál.

„Forsenda frjálsra viðskipta milli þjóða er sjálfstæði þeirra og fullveldi og það ásamt hæfilegri þjóðernisvitund og samkennd er svo forsenda þess að við getum kallað okkur þjóð.

Frá því að þessi 3ji orkupakki leit dagsins ljós lýstu flestir ef ekki allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins því yfir að þeir myndu ekki samþykkja orkupakkann ef í honum fælist yfirráð annarra yfir orkuauðlindum okkar og orkufyrirtækjum eða ákvörðun um lagningu sæstrengs væri í höndum annarra en okkar. Hvað þá ef í honum fælist afsal á fullveldi okkar.

Með þau skilaboð fóru ráðherrar okkar í mikla vinnu til að tryggja með skýrum hætti að öll yfirráð og ákvarðanir hvað þetta varðar væri í okkar höndum.

Hefur sú vinna skilað því að ég er ekki efasemdamaður lengur og mun ekki setja EES samninginn, sem hefur skilað okkur meira en nokkuð annað í seinni tíð, í uppnám með því að hafna 3ja orkupakkanum.

Ég er ekki mikið fyrir að keyra út í skurð og vona að ég komist uppúr honum klakklaust, ef ég þarf þess.

Þetta er mín skoðun í hnotskurn sem ég vildi koma á framfæri. Eðlilega fylgja þessu máli miklar tilfinningar og ég tek því við gusum fram eftir kvöldi. Ég vona samt að við getum tekið málefnalega og yfirvegaða umræðu um málið meðan það er til meðferðar hjá þinginu,“ bætir Brynjar við.