Ekki rétt að við séum einungis að leyfa veirunni að ganga og ná hjarðónæmi

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. / Lögreglan.

„Umræðan hefur verið dálítið. á þeim nótum að lönd beiti annaðhvort svokallaðri einangrunarleið (suppression/containment) eða skaðaminnkandi aðgerðum (mitigation),“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Viljinn bað hann um að skýra nánar stefnu íslenskra sóttvarnayfirvalda í ljósi umræðu um að hér sé stefnt að því að ná fram ákveðnu hjarðónæmi, en reyna um leið að vernda viðkvæma hópa og rekja smit með skipulegum hætti.

Þórólfur svarar þessu í skriflegu svari til Viljans:

„Í fyrsta lagi er ekki einhlít skilgreining á þessum hugtökum en mér sýnist að með einangrunarleið þá sé einkum verið að ræða um aðgerðir sem beinast að hraðri greiningu, einangrun sýktra, smitrakningu og sóttkví á þá sem hugsanlega gætu verið smitaðir. Í þessari leið eru einnig sett nándarmörk (social distancing), samkomutakmarkanir, skólatakmarkanir, ferðabann og jafnvel útgöngubann. Tilgangur þessarar leiðar er að hefta veiruna sem mest og stöðva framgang hennar. Allt af þessu erum við að gera nema ferðabann og útgöngubann.  

Með skaðaminnkandi aðgerðum er verið að tala um að vernda viðkvæma hópa, efla heilbrigðiskerfið og einnig framkvæmd ýmissa samfélagslegar aðgerðir eins og setningu nándarmarka o.fl.. Allt þetta erum við líka að gera. Tilgangur þessara aðgerða er einkum að leyfa veirunni að ganga en vernda viðkvæma hópa og vona að heilbrigðiskerfið ráði við faraldurinn. Þetta erum við líka að gera þ.e. vernda viðkvæma hópa og efla heilbrigðiskerfið,“ segir hann.

Sóttvarnalæknir segir ennfremur, að ekki sé rétt að halda því fram „að við séum einungis að leyfa veirunni að ganga í þeim helsta tilgangi að ná hér hjarðónæmi  sem þýðir að 60% af þjóðinni þyrfti að sýkjast.

Þessu höfum við haldið fram allan tímann,“ segir hann.