Ekki réttlætanlegt að setja skattfé inn í áhætturekstur

Bjarni Benediktsson hættir brátt sem fjármálaráðherra / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði á þingi í dag að ríkisstjórnin hafi haft sérstakan starfshóp að störfum í marga mánuði sem hafi undirbúið viðbragðsáætlun stjórnvalda gagnvart mögulegum áföll í ferðaþjónustu eftir ólíkum sviðsmyndum.

„Ég hef sagt það nokkrum sinnum opinberlega að ég telji ekki réttlætanlegt að setja skattfé inn í áhætturekstur eins og þennan. Þess vegna er það ekki hluti af okkar áætlunum að gera neitt slíkt. En hins vegar þurfa stjórnvöld auðvitað að vera viðbúin, ef einhver meiri háttar röskun verður, að huga að orðsporsáhættu sem því gæti fylgt og eins stöðu farþega og hvernig greiða skuli úr ef á þarf að halda,“ sagði Bjarni í svari við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins.

Bjarni sagði að þessar aðstæður hafi ekki skapast enn, sem betur fer.

„En við erum viðbúin því ef það gerist,“ sagði hann.

„Nú er það ekkert nýtt að flugfélög lendi í vandræðum. Mörg stór flugfélög hafa gert það á undanförnum árum og jafnvel áratugum og þar af leiðandi er fyrir hendi heilmikil reynsla í að bregðast við slíkum aðstæðum. Hefur ríkisstjórnin litið til þeirrar reynslu, leitað sér ráðgjafar? En fyrst og fremst: Hefur ríkisstjórnin eitthvert plan?“ spurði Sigmundur Davíð.