Ekki styð ég ríkisstjórn sem tekur grundvallarmál lífs og dauða slíkum lausatökum

Gunnlaugur A. Jónsson prófessor í guðfræði.

„Í frumtexta hins fyrra testamentis Ritningarinnar fer mikið fyrir hebresku hugtökunum “rehem” og “rahamim”. Þau eru samstofna og merkja móðurlíf og miskunn. Móðurlífið er þar táknmynd fyrir skjól og vernd, umhyggju og miskunn.“

Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands, rifjar þetta upp á fésbókinni í dag — daginn eftir mæðradaginn — þegar flest bendir til þess að „Alþingi samþykki frumvarp þar sem leitt verði í lög að eyða megi lífi í kviði barnshafandi konu svo óhugnanlega seint á meðgöngu sem í 22. viku! Þar er gengið lengra en annars staðar á Norðurlöndum. Og búið er til nýyrðið “þungunarrof” til að forðast tilfinningatengsl við lífið sem þar er verið er að eyða og deyða,“ segir hann.

„Það er afar dapurlegt til þess að hugsa. Sannarlega er móðurlífið ekki táknmynd verndar og miskunnar þegar svo er komið. Raunar alveg þvert á móti,“ bætir prófessorinn við.

Má virkilega ekki fresta þessu máli, hugsa og vinna það betur?

Hann bendir á að í umræðuþættinum Þingvöllum á K100 í gær, þar sem þátttakendur voru prófessor í siðfræði, mannréttindalögfræðingur og fæðingarlæknir, hafi komið vel fram að málið er mjög vanreifað, sjálft fóstrið er ekki nálægt í frumvarpinu og engin samfélagsumræða hafi í raun farið fram um það.

„Þar kom fram hvatning um að þingmenn tækju sér meiri tíma til að gaumgæfa málið líkt og Siðfræðistofnun HÍ hefur þegar lagt til. 

Má virkilega ekki fresta þessu máli, hugsa og vinna það betur? Á því er sýnilega öll nauðsyn og ekkert sem kallar á einhverja flýtimeðferð.

Svo mikið er víst að ekki styð ég ríkisstjórn sem tekur grundvallarmál lífs og dauða slíkum lausatökum,“ segir Gunnlaugur A. Jónsson.