Ekki tekist að sýna fram á nauðsyn þess að leggja á stjórnvaldssekt

Mál Samherja var verulega frábrugðið öðrum málum sem gjaldeyriseftirlit Seðlabankans hafði til meðferðar og bankaráð Seðlabanka Íslands telur að Seðlabankanum hafi ekki tekist að sýna fram á nauðsyn þess að leggja stjórnvaldssekt á fyrirtækið með vísan til ákvarðana í svokölluðum sambærilegum málum.

Þetta kemur fram í greinargerð sem bankaráðið hefur skilað til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og gert var opinbert nú síðdegis.

Þar segir jafnframt:

„Samsetning ráðsins og umboð þess frá Alþingi gerir það afar óheppilegan aðila til að hafa eftirlit með framgöngu bankans í einstökum refsimálum og enn síður til að grípa inn í slík mál. Eðlilegraer að dómstólar og eftir atvikum saksóknarar eða lögregla eða umboðsmaður Alþingis gegni því hlutverki að tryggja bankanum aðhald í refsimálum. Það gerðu þessir aðilar í málum vegna fjármagnshaftanna. Jafnframt kann að koma til greina að starfrækja sérstaka áfrýjunarnefnd, líkt og gert var vegna FME á árum áður og tíðkast enn vegna ákvarðana ýmissra annarra stofnana með hliðstæð hlutverk í refsimálum.“

Þann 12. nóvember sl. óskaði forsætisráðherra eftir greinargerð bankaráðsins um mál Samherja hf. í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 463/2017. Í dómnum var staðfest niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur um að fella úr gildi ákvörðun Seðlabanka Íslands frá 1. september 2016 um að Samherji hf. skuli greiða 15 millj. kr. í stjórnvaldssekt til ríkissjóðs vegna brota gegn 12. gr. reglna nr. 880/2009 um gjaldeyrismál og 12. gr. reglna nr. 370/2010 um gjaldeyrismál, sbr. bráðabirgðaákvæði I laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, með síðari breytingum.

Umbeðin greinargerð hefur nú borist forsætisráðuneytinu og gerð opinber. Auðkenni lögaðila og einstaklinga annarra en Samherja hf. hafa verið afmáð úr greinargerðinni.

Forsætisráðuneytið mun á næstu vikum leggja mat á efnisatriði greinargerðarinnar og hvort tilefni sé til þess m.a. að óska eftir frekari gögnum og skýringum frá bankanum. Forsætisráðuneytið mun jafnframt hafa greinargerðina til hliðsjónar í yfirstandandi vinnu við endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands vegna fyrirhugaðrar sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

Seðlabankinn dragi af þessu lærdóm

Í greinargerðinni er bent á að við erfiðar aðstæður á Íslandi eftir hrun hafi verið nauðsynlegt að setja á gjaldeyrishöft. Jafn nauðsynlegt hafi verið að setja ströng viðurlög við brotum á þeim, enda hafi mikill ávinningur getað falist í því að fylgja þeim ekki.

Þor­steinn Már Bald­vins­son, for­stjóri Sam­herja, og Kristján Vil­helms­son, út­gerðar­stjóri Sam­herja.

„Frá efnahagslegu sjónarmiði virðist því hafa tekist nokkuð vel til með höftin. Þeim fylgdu vissulega veruleg óþægindi fyrir marga aðila og bæði beinn og óbeinn kostnaður en þau náðu þeim efnahagslegu markmiðum sem að var stefnt. Það skiptir óneitanlega höfuðmáli þegar sagan er gerð upp.

Hins vegar tókst ekki jafnvel til með framfylgd og setningu haftanna að ýmsu öðru leyti. Sérstaklega vekur athygli að málarekstri og kærum Seðlabanka og þar áður FME vegna meintra brota á höftunum hefur nánast að öllu leyti verið hafnað af dómstólum eða saksóknurum. Þá hefur þeim stjórnvaldssektum sem bankinn hefur lagt á í mörgum tilfellum verið hnekkt af dómstólum þegar á þær hefur verið látið reyna.

Þetta hefur átt sér ýmsar skýringar. Þær refsiheimildir sem bankinn hefur reynt að byggja á hafaí nokkrum tilfellum ekki staðist skoðun þegar á þær hefur reynt eins og reifað er hér að framan.Á því ber þó ekki bankinn einn ábyrgð. Þá hefur stjórnsýsla bankans í tengslum við gjaldeyriseftirlitsætt harðri gagnrýni.

Gylfi Magnússon er formaður bankaráðs Seðlabankans.

Nú, þegar höftunum hefur að langmestu leyti verið aflétt, er eðlilegt að Seðlabankinn taki þessa sögu alla til gaumgæfilegrar skoðunar og dragi af henni lærdóm.

Seðlabankinn þarf að fara yfir Samherjamálið og einnig önnur mál sem lauk með sáttum eða sektum til að tryggja að meðferð bankans í þessum málum hafi verið samkvæmt lögum og fyllsta jafnræðis verði gætt.

Brýnt er að bankinn taki þá gagnrýni sem fram hefur komið af hálfu umboðsmanns Alþingis til ítarlegrar skoðunar. Hið sama gildir um niðurstöður dómstóla og saksóknara sem fengið hafa mál vegna meintra brota á fjármagnshöftum til afgreiðslu. Það er bæði mikilvægt til að gera upp þessa fortíð með tilhlýðilegum hætti og til að draga af henni eðlilegan lærdóm inn í framtíðina,“ segir í greinargerðinni.