Ekki vera hrædd við að mistakast

Stofnandi amazon.com, frumkvöðullinn og milljarðamæringurinn Jeff Bezos, segir að þeir sem ætla að verða frumkvöðlar verði að vera tilbúnir til að taka mikla áhættu og mistakast.

Þetta kom fram á re:Mars ráðstefnu Amazon í Las Vegas á dögunum, skv. Business Insider. 

„Takið áhættu, þið verðið að vera tilbúin til þess. Áhættulausar hugmyndir hafa að öllum líkindum nú þegar verið framkvæmdar,“ sagði hann. „Þið þurfið að vera að gera eitthvað sem gæti heppnast. Það verður að mörgu leyti tilraun.“

„Við tökum áhættu allan tímann og tölum um mistök. Við þurfum stór mistök til að ná að komast áfram. Gerum við það ekki, þá erum við ekki að tefla nógu djarft. Þið verðið að tefla djarft, og ykkur mun mistakast, en það er allt í lagi.“

Bezos stofnaði Amason árið 1995 með aðeins tíu starfsmenn. Síðan þá hefur hann breytt fyrirtækinu í eitt verðmætasta hlutafélag heims, með markaðsvirði allt að 860 milljarða Bandaríkjadollara.

Hann segir að auk hugrekkis til að taka mikla áhættu og mistakast, þurfi frumkvöðlar einnig að vera ástríðufullir, þar eð þeir muni þurfa að keppa við ástríðufullt fólk. „Jafnframt verðiði að vera með viðskiptavininn á heilanum. Ekki aðeins miða við að viðskiptavinurinn sé sáttur, hann verður að vera himinlifandi.“