Loftvarnarflautur hljóðuðu í Tel Aviv í Ísrael í kvöld, en tveimur eldflaugum var skotið þangað af Gaza-svæðinu, þeim fyrstu síðan í stríðinu árið 2014.
Það er talið gefa vísbendingar um upphaf ofbeldisöldu hryðjuverkahópa á Gaza nú þegar aðeins nokkrar vikur eru í þingkosningar í Ísrael, sem haldnar verða þann 9. apríl nk. og aðeins tveir mánuðir eru í að Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva verði haldin í borginni.
Íbúar í Tel Aviv og nærliggjandi borg, Gush Dan, flýðu í loftvarnarbyrgi og heyrðu sprengingar. Eldflaugarnar lentu báðar á berangri og ullu ekki mannfalli.
Fyrstu fréttir gáfu til kynna að eldflaugavarnarkerfið hafi verið virkjað til að stöðva eldflaugarnar, en ísraelska varnarmálaráðuneytið gaf út að varnarflaugar hefðu ekki stöðvað árásarflaugarnar og óljóst sé hvort varnarflaugum hafi yfir höfuð verið skotið.
„Tveimur eldflaugum var skotið af Gaza-svæðinu að ísraelsku landsvæði. Viðvörunarkerfin fóru af stað sem skyldi,“ er haft eftir ísraelska hernum.
„Engar loftvarnir áttu sér stað. Ekki er vitað til þess að skemmdir hafi orðið né manntjón. Engar sérstakar leiðbeiningar hafa verið gefnar út til almennra borgara í landinu.“
Ekki er ljóst hvaða öfgahópar á Gaza-svæðinu bera ábyrgð á eldflaugaárásinni, sem átti sér stað vikulegum mótmælum við landamæri Gaza-svæðisins og Ísraels.
Talsmaður hryðjuverkasamtaka Hamas sagði við The Times of Israel að samtökin „hefðu ekki hugmynd um“ hver bæri ábyrgð á árásinni og hefðu engan áhuga á vaxandi deilum við Ísrael. Fyrstu fréttir sögðu að flaugar í eigu palestínsku öfgasamtakanna Heilagt stríð (Palestinian Islamic Jihad PIJ) og hebreskir miðlar hafa greint frá því að samtökin eigi flaugar þeirrar gerðar sem skotið var í vopnabúri sínu, en samtökin hafa neitað fréttunum og kallað þær „rakalausar lygar.“