Eldgos er hafið á Reykjanesskaga, fjórða gosið á þremur árum. Tuttugu mínútur yfir tíu sáust fyrstu merki um gosóróa, en um kl. 21 í kvöld hófst öflug jarðskjálftahrina.
Náttúröflin ráða ein för, því ekki er lengra síðan í fyrradag að rætt var hvort landris væri hætt, sbr þessa færslu á vef Veðurstofunnar:
Of snemmt er að fullyrða að kvikusöfnun við Svartsengi hafi stöðvast og landrisi sé lokið. Vísbendingar eru um að hægt hafi á landrisinu síðustu daga, en nauðsynlegt er að bíða eftir frekari gögnum til að túlka mögulega þróun atburðarásarinnar.
Vísindafólk mun funda um stöðuna strax eftir helgi. Nýtt hættumatskort verður gefið út 20. desember sem mun endurspegla túlkun nýjustu gagna.
Þá var umræða hafin hvort Grindvíkingar gætu snúið til síns heima fyrir jólin. Ljóst er að slík áform eru nú úr sögunni, að minnst kosti í bili.
Háir gosstrókar standa nú upp úr myndarlegri sprungu norðan við Grindavík og austan við Bláa lónið.
Af fyrstu viðbrögðum jarðvísindafólks að dæma er ljóst að atburðarásin kemur verulega á óvart. Þannig sagði Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur á dögunum að kvikuþrýstingur eða kvikumagn í bólunni nálægt botni jarðskorpunnar væri ekki nægjanlegt til að valda eldgosi.
„Það er ekkert sem bendir til að það sé að vænta breytinga á þessu ástandi á næstunni. Þrátt fyrir það hafa Almannavarnir lokað Grindavíkurbæ og flutt alla íbúa á brott. Allt bendir til að sú lokun standi fram á næsta ár. Það er erfitt að gera sér í hugarlund þau áhrif sem langtíma lokun og rýming bæjarins hefur á efnahag og enn fremur á hugarfar og sálarástand íbúanna sem nú eru í útlegð. Hver og einn getur reynt að seta sig í spor flóttafólksins. Að mínu áliti er lokunin og framlenging hennar ekki réttlætanleg frá sjónarhóli jarðfræðings sem hefur rannsakað eldfjöll í sextíu ár,“ sagði Haraldur og bætti við: „Mér er reyndar óskiljanlegt hvers vegna Almannavarnir og Veðurstofan hafa haldið áfram lokun á Grindavík. Íslendingar hafa alltaf vitað að þeir búa á landi þar sem náttúrhamfarir eru óhjákvæmilegur þáttur lífsins. Það þarf seiglu til að búa á slíku landi og það er viss áhætta, en það er einmitt eitt af aðalsmerkjum Íslendinga.“
En svo kom gosið sem Haraldur og fleiri áttu ekki von á.
Ljósmynd tekin frá Perlunni í Öskjuhlíð nú í kvöld.