Hættustig Almannavarna hefur verið virkjað vegna eldgoss sem hafið við Litla Hrút. Um kl. 16.40 sást greinilega hvar mikill reykjarmökkur steig upp frá upptökum þessa þriðja eldgoss sem kemur upp á Reykjanesi á skömmum tíma og nokkru síðar hafði kvikan brotið sér leið upp á yfirborðið.
Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögregluna á Suðurnesjum, hefur virkjað hættustig Almannavarna vegna gossins. Almannavarnir biðla til fólks að fara ekki nærri gosupptökum. Það er mikilvægt að halda svæðinu öruggu. Vísindamenn eru að störfum að meta stöðuna.
Björn Hróarsson jarðfræðingur birtir þessa ljósmynd á fésbókinni nú síðdegis og segir að eldgosið fari að minnsta kosti rólega af stað.
Á fésbókarsíðu Veðurstofu Íslands segir:
„Um kl. 16:40 hófst eldgos við Litla Hrút. Talið er að sprungan sé um 200 metra löng og má sjá kvikustróka stíga þar upp úr og hraun flæða úr þremur stuttum sprungum við austur- og norðausturhlíðar Litla Hrúts sem stefna í norðaustur. Eldgosið kemur upp í lítilli dæld við fellið og flæðir hraun í dældina og rýkur úr því til norðvesturs. Starfsfólk Veðurstofunnar eru á svæðinu við mælingar. Gasmengun fer líklega yfir Reykjanesbæ, Voga, Vatnsleysu og höfuðborgarsvæðið en það er suðlæg átt, 3-8 m/s yfir gossvæðinu í kvöld og nótt.
Aðdragandi gossins er sá að Veðurstofa Íslands varð vör við óróa á skjálftastöð við Fagradalsfjall á laugardagsmorgun, og aftur á sunnudagskvöld rétt fyrir 5,2 gikkskjálftann við Driffell kl. 22:23. Aftur varð vart við óróa kl. 14 í dag 10. júlí 2023 og sá var borinn saman við óróa á sömu stöð í upphafi eldgosannna árið 2021 og 2022. Gosóróinn jókst síðan skyndilega kl. 16:30 og gosið hófst nokkrum mínútum seinna.“