Eldmessa Arnþrúðar: Djúpríkið hefur öll völd hér á landi

Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri. / Ljósmynd: Útvarp Saga.

„Það hefur löngum verið talað um að stjórnmálaelítan hafi markað sér slíka sérstöðu að almenningur í landinu eigi enga möguleika ef hann gengur gegn vilja og ákvörðunum elítunnar. Þetta er gömul saga og ný en í raun er ekki rétt að tala um stjórnmálaelítu heldur djúpríkið eða skuggastjórnendur. Hið andlitslausa djúpríki samanstendur af ýmsum hagsmunatengdum aðilum, jafvel æviráðnum embættismönnum sem eru fimir í “sendiferðum” . Þeir eiga það sameiginlegt að ætla sér að ráða öllu í landinu og ekki hvað síst hvernig þjóðarkökunni er skipt og hverjir geti lagt undir sig auðlindir landsins. Fremstir í þeirri skiptingu eru þeir sjálfir og fjölskyldur þeirra ásamt vinum og vandamönnum.“

Þetta segir Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri á Útvarpi Sögu, í sannkallaðri eldmessu sem birtist í dag á vefsíðu stöðvarinnar. 

Djúpríkið með sína menn á réttum stöðum

„Djúpríkið þarf að hafa sína menn á Alþingi, inná löggjafarsamkundunni þar sem léttvægt virðist vera að tala tungum tveim og sitt með hvorri.

Djúpríkið vill hafa sína ráðherra og embættismenn innan framkvæmdavaldsins sem taka við fyrirskipunum frá djúpríkinu. Djúpríkið vill hafa sína dómara innan dómsvaldsins, jafnvel þótt það leiki vafi á lögmæti skipunar þeirra í embætti. Djúpríkið þarf að hafa sinn fjölmiðil sem fer með fjórða valdið og hér á landi birtist það með RUV. Djúpríkið vill hafa almannatengla á sínum vegum til þess að búa til sjónhverfingar á ögurstundum.

Þeir sem ganga gegn vilja djúpríkisins eru taldir, jafnvel skráðir sem sérstakir óvinir ríkisins og meðhöndlaðir sem slíkir. Öllum almenningi í landinu er sagt að hér sé ríkjandi réttarríki sem grundvallist á þrígreiningu ríkisvalds. Okkur er líka sagt að bera virðingu fyrir valdinu sem er í raun, hið andlitslausa djúpríki sem enginn kaus,“ segir hún.

Leynd yfir “innherjaupplýsingum”

Arnþrúði er augsýnilega mikið niðri fyrir vegna innleiðingar þriðja orkupakkans og hún segir það vekja furðu, að núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn hafi ekki upplýst þjóðina, fyrir löngu,um þá ákvörðun utanríkisráðherra frá 5. maí 2017 að samþykkja tilskipun ESB inní EES samninginn með stjórnskipulegum fyrirvara sem nú er fyrirhugað að aflétta á alþingi.

„Hér er um að ræða upplýsingar sem varða þjóðina alla en aðeins fulltrúar djúpríkisins fengu þær upplýsingar. Í raun er verið að tala um innherjaupplýsingar til fárra útvaldra, handhafa djúpríkisins.

Landeignir og vatnsréttindi með einhverri lækjarsprænu um land allt hafa selst eins og heitar lummur síðust misserin því innherjaupplýsingarnar rötuðu beint á “rétta staði“, segir hún.

„Allur almenningur í landinu er núna að átta sig á hvernig upplýsingum hefur verið haldið leyndum á sama tíma og afgreiðsla Orkupakkamálsins á að fara í gegnum þingið á leifturhraða. Þeir sem efast um málið eru kallaðir þjóðernispoppúlistar með meiru sem er kunnuglegt stef frá fulltrúum djúpríkisins. Stimpla þá sem eru ekki sammála heitir það víst og setja þá á lista valdsins, yfir óvini ríkisins. Almenningi er sagt að nú sé öllu óhætt því slíkir fyrirvarar séu komnir í málið að ekkert sé að óttast. Staðreyndin er hinsvegar sú að umræddir fyrirvarar myndu tæpast halda til Vestmannaeyja ef á reyndi, samanber niðurstaðan í kjötmálinu fræga,“ bætir hún við.

Og lokaorð útvarpsstjórans eru þessi:

„Allt frá árinu 2009 hafa upplýsingar um framtíðarskipulag orkumála og fjármála í Evrópu verið að þróast og þar hefur Ísland sannarlega verið inná teikningunni. Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms hamaðist við að fela upplýsingar til þjóðarinnar, næstu 110 árin eins og frægt er orðið, í boði djúpríkisins. Þess í stað var fólki talin trú um að slegin yrði skjaldborg um það, sem auðvitað aldrei kom.

Þetta voru hreinlega sjónhverfingar sem almenningi var boðið uppá og fólk sjálft, látið borga brúsann, í boði djúpríkisins sem hagnaðist við hverja nauðungarsölu. Það tilboð er komið aftur og með viðauka, sem felur í sér opnar dyr inní Evrópusambandið og þjóðin stendur nánast auðlindalaus eftir og horfir dauðum augum á hvað stendur næst í rafrænum skilaboðum í tölvunni.

Djúpríkið hefur öll völd hér á landi. Stöðvum það. Afhjúpum það.“