Elliði gagnrýnir þingflokk sjálfstæðismanna fyrir að styðja orkupakkann

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi og af mörgum talinn framtíðarforystumaður í Sjálfstæðisflokknum, gagnrýnir þingflokk Sjálfstæðisflokksins fyrir skilyrðislausan stuðning sinn við innleiðingu þriðja orkupakkans og segist hafa óttast að júlímæling MMR yrði í þá átt sem raunin varð.

Eins og Viljinn skýrði frá í gær, mælist Sjálfstæðisflokkurinn í sögulegu lágmarki í könnun MMR og er kominn niður í 19% fylgi. Það er minnsta fylgi flokksins sem MMR hefur mælt og er algjörlega fáheyrt að þessi stóri flokkur í sögulegu tilliti mælist með viðlíka fylgi.

Elliði segir í færslu á fésbókinni í dag, þar sem hann deilir niðurstöðu MMR, að honum hafi nánast fundist það vera áskorun á sjálfstæðismenn að kjósa eitthvað annað þegar fullyrt hefur verið: „þetta mál (Orkupakki 3) hefur ekki haft áhrif á fylgið“.

„Staðreyndin er sú að það kann ekki góðri lukku að stýra þegar þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fer allur sem einn á bak við mál, sem fyrst og fremst á stuðning meðal Samfylkingarflokkanna, og er að auki í andstöðu við vilja Landsfundar,“ segir Elliði Vignisson.