Ögmundur Jónasson, fv. innanríkisráðherra og þingmaður Vinstri grænna, er óhress með tíðindi af endurkomu Bandaríkjahers hingað til lands. En sem kunnugt er, hefjast á næstunni framkvæmdir við búðir fyrir um þúsund bandaríska hermenn á Miðnesheiðinni, auk margvíslegra annarra framkvæmda á vegum Atlantshafsbandalagsins og bandaríska hersins.
„Herinn sem hvarf af landi brott árið 2006 er að snúa til baka.
Og ef hann snýr til baka – og ég endurtek ef af verður, ef ekki verður gripið í taumana – þá verður það í boði Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Það er ömurlegra og alvarlegra en orð fá lýst. Við vitum allt um dapurlega sögu Sjálfstæðisflokksins í þessu efni og tilhneigingu innan Framsóknar til undirgefni gagnvart NATÓ þótt þar hafi einnig löngum verið annar þráður og betri, oftar en ekki að vísu illgreinanlegur.
Þá er VG eftir. En hvað heyrum við þaðan?
Þar á bæ er hamrað á því að allt sé þetta öðrum að kenna. VG fái ekki neitt við ráðið, sé fórnarlamb. Ríkisstjórnin, 2009-13, sem VG átti aðild að, hafi umborið “loftrýmiseftirlit” og síðar hafi þjóðaröryggisstefna með aðildina að NATÓ sem eina af grunnstoðunum verið samþykkt á Alþingi. VG hafi einn flokka ekki samþykkt þennan þátt þjóðaröryggisstefnunnar heldur setið hjá.
Það er mikið rétt, hjáseta var það sem boðið var upp á. Því miður beitti flokkurinn sér ekki sem skyldi gegn þessari fráleitu stefnu. Á því voru þó undantekningar. Því miður var ég ekki viðstaddur lokaatkvæðagreiðsluna en í umræðunni lagðist ég mjög eindregið gegn því að fallast á að NATÓ aðild yrði blessuð í öryggismálastefnu fyrir Ísland, hvorki með samþykki né samþykkt baráttulaust með hjásetu.“ segir Ögmundur í pistli á heimasíðu sinni.
Og hann bætir við:
„Hvað sem líður svokallaðri þjóðaröryggisstefnu, sem þarfnast að sjálfsögðu stöðugrar endurskoðunar í ljósi þróunar í heimsmálum, þá er ekkert sem réttlætir þá hernaðaruppbyggingu sem nú stendur fyrir dyrum í landinu. Almenn “þjóðaröryggisstefna” dugir ekki til að réttlæta umfangsmikla hernaðaruppbyggingu hér á landi; leyfir ekki að stríðsglæpamönnum sé heimilað að hreiðra um sig í landinu að nýju. Ekki undir neinum kringumstæðum!“