„Þótt forystuliðið væri gott var það liðsheildin og baráttuvilji félaganna sem úrslitum réði. Sjálfstæði var tilvísunin og ekki fengin frá auglýsingastofum eins og nú tíðkast. Stjórnarsáttmálar voru samdir af leiðtogunum sjálfum með yfirlegu og samráði en ekki af pólitísku aðstoðarfólki á meðan aðrir átu vöfflur.
Þá og alllengi síðar tóku menn landsfundarsamþykktir mjög alvarlega vegna þess að þeir tóku sjálfa sig og flokkinn sinn mjög alvarlega. Þeir hefðu ekki verið í þessu nema vegna þess að baráttan knúði þá áfram og baráttan skipti öllu.
Allt fram undir lokatíð bréfritara á þeim vettvangi fór formaður flokksins með uppköst landsfundarsamþykkta heim með sér á kvöldin á meðan á landsfundi stóð og teldi hann að eitthvað mætti betur fara eða eitthvað ylli misskilningi var strax rætt við flutningsmenn og lausn fundin.
Elstu menn sögðu að þannig hefði ætíð verið haldið á málum. Bréfritara þótti ekki ástæða til að breyta því.“
Þetta skrifar Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fv. formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, í mögnuðu Reykjavíkurbréfi blaðsins í dag, þar sem hann sendir forystu Sjálfstæðisflokksins sannkallaða breiðsíðu aðra vikuna í röð og svarar fornvini sínum, Halldóri Blöndal, fullum hálsi, en Halldór hafði sent Davíð þungar ákúrur í opnu bréfi í vikunni.
„Síðustu árin hefur virst að forystusveitinni sé nokkuð sama um hvað samþykkt sé á landsfundum, því að ekkert þurfi með það að gera.
Og eins og sést glitta í núna hika menn ekki í sínum erindrekstri að útskýra fengnar niðurstöður fólksins burt með útúrsnúningum, sem eru ögrun við skynsemi landsfundarfulltrúa.
Nú þykir fínt að reynslulítið fólk, sem hefur fengið pólitískt vægi með slíkt nesti langt umfram það sem áður tíðkaðist, tali niður til flokkssystkina sinna og leggi lykkju á leið sína til að vísa þeim sem eldri eru út úr umræðunni með þótta sem fer öllum illa.
Það kann ekki góðri lukku að stýra. Enn er eldra fólk í hópi góðra stuðningsmanna þessa flokks. Sé það virkilega svo, eins og þessir nefndu textar og hortugheit bera með sér, að haft sé horn í síðu þessa fólks er rétt að nýgræðingarnir frábiðji sér upphátt atkvæði þess til flokksins með afgerandi hætti.
Eins og stemningin er núna er líklegt að slíkri beiðni verði betur tekið en hefði verið endranær,“ skrifar Davíð ennfremur.
Skondin ráðgjöf og úr óvæntri átt
„Í Reykjavíkurbréfi sem birt var fyrir réttri viku var, eins og endranær, margt viðrað sem leitaði á huga. Þar var vakin athygli á grein eftir Jón Hjaltason sem borist hafði blaðinu. Grein þessi hafði fengið óvenju sterk viðbrögð.
Halldór Blöndal tók það óstinnt upp og sendi bréfritara orð í þriðjudagsblaðinu. Halldór vandar um og segir og endurtekur að bréfritari eigi ekki að skrifa þegar illa liggi á honum.
Þeim sem þekkja Halldór best mun þykja þessi ráðgjöf skondin og úr óvæntri átt.
Hann kvartar í framhjáhlaupi yfir því í greininni að Selfyssingarnir og formennirnir Þorsteinn Pálsson og bréfritari skuli ekki hafa komið saman til hins fámenna afmælisfagnaðar. Þeir í Valhöll virðast hafa gleymt að segja Halldóri að þegar Þorsteinn gekk til liðs við flokk Benedikts Jóhannessonar skráði tölvan, sem er manngleggst á skrifstofunni, þá sjálfkrafa út úr flokknum, báða tvo og fór létt með það.
Það hefði því farið betur á að Þorsteinn hefði verið samferða hinum óvæntu utanflokksgestum í afmælið, þótt ekki sé vitað til að hann hafi stutt það með þeim að reynt yrði að koma Geir H. Haarde á bak við lás og slá.
Halldór Blöndal gat stundum forðum tíð haft áttavita sem mátti hafa hliðsjón af. En hann ratar illa eftir að notkunin á ættarvitanum óx. Og lendir þá í hverri hafvillunni af annarri. Ættarvitanum fylgdi hann þegar hann kúventi yfir nótt og lagðist á árar með Jóhönnu og Steingrími í Icesave og erlendum kröfuhöfum. Flokkurinn hans og okkar hefur ekki borið sitt barr síðan.
Allur þorri flokksmanna á móti orkupakkaruglinu
Nú sýna kannanir að allur þorri flokksmanna er á móti orkupakkaruglinu. Enginn hefur fengið að vita af hverju forystan fór gegn flokknum í Icesave. Og nú fær enginn að vita „af hverju í ósköpunum“, svo notuð séu orð formannsins sjálfs, laskaður flokkurinn á að taka á sig enn meiri högg. Halldór Blöndal áttar sig ekki á þessu fremur en Icesave, sem hann hafði barist gegn þar til ættarvitinn tók öll völd. Þessi sami ættarviti sem núna er að ærast í segulstormunum.
Það vantaði ekki neitt upp á það að hann sendi þá gömlum vinum sínum kveðjurnar eftir krókaleiðum vegna þess að þeir mökkuðu ekki með. Þeirra svik voru að fara ekki kollhnís þegar kallið barst frá Steingrími og kröfuhöfum.
Nú hefur bréfritari ekki heyrt í Halldóri lengi. En hann hringir til manna allt í kringum þann með sama hætti og síðast og þeir segja að það liggi þetta líka óskaplega illa á honum núna. Það hlýtur að gera það, því að Halldór er innst inni drengur góður.
Hann ætti því kannski að bíða með þessar hringingar.
En best væri þó að skátarnir segðu honum að ættarvitar hafi aldrei náð nokkurri átt.
Aldrei,“ skrifar Davíð Oddsson í Reykjavíkurbréfinu, sem sætir sannarlega tíðindum í íslenskum stjórnmálum og sýnir — svo ekki verður um villst — að það logar allt innandyra í Valhöll, höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins.