Engeyingurinn Blöndal rat­ar illa eft­ir að notk­un­in á ætt­ar­vit­an­um óx

Nú er vík milli vina: Halldór Blöndal þáverandi samgönguráðherra og Davíð Oddsson forsætisráðherra við opnun Hvalfjarðarganganna.

„Þótt for­ystuliðið væri gott var það liðsheild­in og bar­áttu­vilji fé­lag­anna sem úr­slit­um réði.  Sjálf­stæði var til­vís­un­in og ekki feng­in frá aug­lýs­inga­stof­um eins og nú tíðkast. Stjórn­arsátt­mál­ar voru samd­ir af leiðtog­un­um sjálf­um með yf­ir­legu og sam­ráði en ekki af póli­tísku aðstoðarfólki á meðan aðrir átu vöffl­ur.

Þá og all­lengi síðar tóku menn lands­fund­ar­samþykkt­ir mjög al­var­lega vegna þess að þeir tóku sjálfa sig og flokk­inn sinn mjög al­var­lega. Þeir hefðu ekki verið í þessu nema vegna þess að bar­átt­an knúði þá áfram og bar­átt­an skipti öllu.

Allt fram und­ir lokatíð bréf­rit­ara á þeim vett­vangi fór formaður flokks­ins með upp­köst lands­fund­ar­samþykkta heim með sér á kvöld­in á meðan á lands­fundi stóð og teldi hann að eitt­hvað mætti bet­ur fara eða eitt­hvað ylli mis­skiln­ingi var strax rætt við flutn­ings­menn og lausn fund­in.

Elstu menn sögðu að þannig hefði ætíð verið haldið á mál­um. Bréf­rit­ara þótti ekki ástæða til að breyta því.“

Þetta skrifar Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fv. formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, í mögnuðu Reykjavíkurbréfi blaðsins í dag, þar sem hann sendir forystu Sjálfstæðisflokksins sannkallaða breiðsíðu aðra vikuna í röð og svarar fornvini sínum, Halldóri Blöndal, fullum hálsi, en Halldór hafði sent Davíð þungar ákúrur í opnu bréfi í vikunni.

„Síðustu árin hef­ur virst að for­ystu­sveit­inni sé nokkuð sama um hvað samþykkt sé á lands­fund­um, því að ekk­ert þurfi með það að gera.

Og eins og sést glitta í núna hika menn ekki í sín­um er­ind­rekstri að út­skýra fengn­ar niður­stöður fólks­ins burt með út­úr­snún­ing­um, sem eru ögr­un við skyn­semi lands­fund­ar­full­trúa.

Nú þykir fínt að reynslu­lítið fólk, sem hef­ur fengið póli­tískt vægi með slíkt nesti langt um­fram það sem áður tíðkaðist, tali niður til flokks­systkina sinna og leggi lykkju á leið sína til að vísa þeim sem eldri eru út úr umræðunni með þótta sem fer öll­um illa.

Það kann ekki góðri lukku að stýra. Enn er eldra fólk í hópi góðra stuðnings­manna þessa flokks. Sé það virki­lega svo, eins og þess­ir nefndu text­ar og hort­ug­heit bera með sér, að haft sé horn í síðu þessa fólks er rétt að nýgræðing­arn­ir frá­biðji sér upp­hátt at­kvæði þess til flokks­ins með af­ger­andi hætti.

Eins og stemn­ing­in er núna er lík­legt að slíkri beiðni verði bet­ur tekið en hefði verið endra­nær,“ skrifar Davíð ennfremur.

Skondin ráðgjöf og úr óvæntri átt

„Í Reykja­vík­ur­bréfi sem birt var fyr­ir réttri viku var, eins og endra­nær, margt viðrað sem leitaði á huga. Þar var vak­in at­hygli á grein eft­ir Jón Hjalta­son sem borist hafði blaðinu. Grein þessi hafði fengið óvenju sterk viðbrögð.

Hall­dór Blön­dal tók það óst­innt upp og sendi bréf­rit­ara orð í þriðju­dags­blaðinu. Hall­dór vand­ar um og seg­ir og end­ur­tek­ur að bréf­rit­ari eigi ekki að skrifa þegar illa liggi á hon­um.

Þeim sem þekkja Hall­dór best mun þykja þessi ráðgjöf skond­in og úr óvæntri átt.

Hann kvart­ar í fram­hjá­hlaupi yfir því í grein­inni að Sel­fyss­ing­arn­ir og for­menn­irn­ir Þor­steinn Páls­son og bréf­rit­ari skuli ekki hafa komið sam­an til hins fá­menna af­mæl­is­fagnaðar. Þeir í Val­höll virðast hafa gleymt að segja Hall­dóri að þegar Þor­steinn gekk til liðs við flokk Bene­dikts Jó­hann­es­son­ar skráði tölv­an, sem er mann­g­leggst á skrif­stof­unni, þá sjálf­krafa út úr flokkn­um, báða tvo og fór létt með það.

Það hefði því farið bet­ur á að Þor­steinn hefði verið sam­ferða hinum óvæntu ut­an­flokks­gest­um í af­mælið, þótt ekki sé vitað til að hann hafi stutt það með þeim að reynt yrði að koma Geir H. Haar­de á bak við lás og slá.

Hall­dór Blön­dal gat stund­um forðum tíð haft átta­vita sem mátti hafa hliðsjón af. En hann rat­ar illa eft­ir að notk­un­in á ætt­ar­vit­an­um óx. Og lend­ir þá í hverri haf­vill­unni af ann­arri. Ætt­ar­vit­an­um fylgdi hann þegar hann kúventi yfir nótt og lagðist á árar með Jó­hönnu og Stein­grími í Ices­a­ve og er­lend­um kröfu­höf­um. Flokk­ur­inn hans og okk­ar hef­ur ekki borið sitt barr síðan.

Allur þorri flokksmanna á móti orkupakkaruglinu

Nú sýna kann­an­ir að all­ur þorri flokks­manna er á móti orkupakkarugl­inu. Eng­inn hef­ur fengið að vita af hverju for­yst­an fór gegn flokkn­um í Ices­a­ve. Og nú fær eng­inn að vita „af hverju í ósköp­un­um“, svo notuð séu orð for­manns­ins sjálfs, laskaður flokk­ur­inn á að taka á sig enn meiri högg. Hall­dór Blön­dal átt­ar sig ekki á þessu frem­ur en Ices­a­ve, sem hann hafði bar­ist gegn þar til ætt­ar­vit­inn tók öll völd. Þessi sami ætt­ar­viti sem núna er að ær­ast í seg­ul­stormun­um.

Það vantaði ekki neitt upp á það að hann sendi þá göml­um vin­um sín­um kveðjurn­ar eft­ir króka­leiðum vegna þess að þeir mökkuðu ekki með. Þeirra svik voru að fara ekki koll­hnís þegar kallið barst frá Stein­grími og kröfu­höf­um.

Nú hef­ur bréf­rit­ari ekki heyrt í Hall­dóri lengi. En hann hring­ir til manna allt í kring­um þann með sama hætti og síðast og þeir segja að það liggi þetta líka óskap­lega illa á hon­um núna. Það hlýt­ur að gera það, því að Hall­dór er innst inni dreng­ur góður.

Hann ætti því kannski að bíða með þess­ar hring­ing­ar.

En best væri þó að skát­arn­ir segðu hon­um að ætt­ar­vit­ar hafi aldrei náð nokk­urri átt.

Aldrei,“ skrifar Davíð Oddsson í Reykjavíkurbréfinu, sem sætir sannarlega tíðindum í íslenskum stjórnmálum og sýnir — svo ekki verður um villst — að það logar allt innandyra í Valhöll, höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins.