Engin leið að segja til um það nú hve lengi gosið stendur

Mynd: Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákveðið að loka fyrir umferð um Suðurstrandarveg á vegarkafla á milli Krísuvíkurvegamóta og Hrauns frá klukkan 13:00 í dag. Umferð sem á brýnt erindi á þessari leið verður hleypt um veginn. Gönguleið að eldgosinu í Geldingadölum verður einnig lokað vegna veðurs. Framundan er mikið hvassviðri og stórhríð og því ekkert útivistarveður á svæðinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum. Í veðurspá frá Veðurstofu Íslands segir:

„Austanáttin hefur mælst um 17 m/s við gosstöðvarnar í morgun, það er þurrt og frostið um 7 gráður. Í dag hvessir enn frekar, og undir kvöld er útlit fyrir austan 20-25 m/s og snjókomu og skafrenning með lélegu skyggni og minnkandi frosti. Sem sagt stórhríð og ekkert útivistarveður. lægir seint í kvöld, og í nótt og fyrramálið verða austan 5-10 m/s og él á svæðinu, með hita nálægt frostmarki. Um og eftir hádegi á morgun lægir svo enn frekar og áttin verður breytileg. Annað kvöld snýst svo í norðan 10-15 m/s og styttir upp og kólnar. Áfram norðan 10-15 og þurrt á mánudag, en síðdegis snýst í minnkandi norðaustanátt. Vægt frost.Engin leið er að segja til um það nú hve lengi gosið stendur.“

Vísindaráð almannavarna fundaði í gær vegna eldgossins í Geldingadölum. Frá því að gosið hófst hefur mikil gagnasöfnun átt sér stað, mælingar gerðar og líkön um framvindu keyrð. Um helgina verður gerð ítarleg samantekt um stöðu mála og tillögur um reglulegt eftirlit og vöktun lagt fram. Hér að neðan er stutt samantekt um gosið, en Veðurstofa Íslands og Jarðvísindastofnun birta reglulega niðurstöður mælinga og er fólk hvatt til þess að fylgjast með vefsíðum þeirra.

Eldgosið í Geldingadölum hefur nú staðið í tæpa viku. Á vef almannavarna segir að gosið sé hraungos með lítilli sprengivirkni og kvikan sem komi upp sé þunnfljótandi basalt. Gosið er fremur afllítið. Hraunrennslið virðist stöðugt og hefur haldist svipað frá upphafi, um 5-7 m3/s. Eins og er þá er hraunið er allt innan Geldingadala en haldi gosið áfram með svipuðum hætti mun það byrja að renna út úr dölunum til austurs og í átt að Meradölum eftir eina til tvær vikur. Ef framleiðnin helst í sama horfinu getur gosið þróast yfir í dyngjugos, sem oft eru langvin og mynda hraunbreiður sem ná kílómetra upp í nokkra tugi kílómetra frá upptökum. Kvikan er rík í MgO (8.5%) og kemur af um 17-20 km dýpi. Gasmengun er viðvarandi við gosstöðvarnar og getur orðið veruleg við ákveðin skilyrði. Ekki hafa komið fram merki um umtalsverðar jarðskorpuhreyfingar eftir að gosið hófst.

Athuganir á gervitunglagögnum benda til þess að kvikugangurinn, sem myndaðist vikurnar fyrir gosið, og opnaðist í Geldingadölum, sé ekki að fara að mynda nýjar gosstöðvar annarstaðar yfir ganginum. Engin leið er að segja til um það nú hve lengi gosið stendur.

Gosið í Geldingadölum kallar á sérstakt, reglubundið eftirlit, þar sem fylgst er náið með þróun gossins og mengun frá gosinu og áhrifum þess á loftgæði og gróður á svæðinu.