„Ítrekað hef ég spurt til hvaða öryggisráðstafana stjórnvöld hyggist grípa samhliða áformum um að flytja fjölda fólks hingað frá Gasasvæðinu. Engin svör hafa borist en þau eru orðin aðkallandi,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra.
Greint var frá því í gær, að 72 einstaklingar frá Gaza, með dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar, hafi komist til Kaíró seint á mánudagskvöld og haldi í kjölfarið til Íslands eftir að ísraelsk stjórnvöld afgreiddu fyrirliggjandi nafnalista um helgina.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra átti símafund með Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels, þriðjudaginn 27. febrúar síðastliðinn til að greiða fyrir afgreiðslu málsins.
Sendinefnd utanríkisráðuneytisins hefur undanfarnar vikur unnið að því að greiða fyrir för fólksins og átt í virkum samskiptum við fulltrúa egypskra og ísraelskra stjórnvalda auk fulltrúa annarra ríkja á svæðinu. Sú vinna hefur nú borið tilætlaðan árangur. Í þessum samskiptum kom fram að listi Íslands væri einstakur þar sem þar eru einungis dvalarleyfishafar, en engir íslenskir ríkisborgarar. Önnur ríki hafa þannig í mestum mæli veitt eigin ríkisborgurum og fjölskyldum þeirra liðsinni í þessum efnum.
Sigmundur Davíð bendir á að í fyrra hafi fleiri Palestínumenn sótt um hæli á Íslandi en á öllum hinum Norðurlöndunum til samans. Hin löndin höfðu þá almennt ekki samþykkt umsóknir þeirra, árin á undan, ólíkt Íslandi sem haldi áfram að marka sér sérstöðu.
„Hin Norðurlöndin hafa ekki samþykkt fjölskyldusameiningar eftir hryðjuverkin 7. október og almennt ekki sótt aðra en eigin ríkisborgara. Þegar ráðist er í að sækja fólk frá svæði þar sem hryðjuverkasamtök hafa stýrt öllu í 20 ár, svæði þar sem var yfirgnæfandi stuðningur við voðaverkin 7. okt., þá þarf að gera öryggisráðstafanir.
Sænska leyniþjónustan SÄPO rannsakar þá sem dvalist hafa á Gasa. Þegar kom til tals að Þjóðverjar tækju við fólki frá svæðinu benti öryggislögreglan á að það kallaði á verulegar rannsóknir og eftirlit. Þjóðverjar ákváðu að taka við 200 starfsmönnum þýskra hjálparstofnana á Gasa. Fólkið var komið til Egyptalands en eftir viðtöl var aðeins helmingnum hleypt til Þýskalands. Hinir töldust of hættulegir.
Ég mun nú leggja fram skriflegar fyrirspurnir til utanríkis- og dómsmálaráðherra um það sem þeir hafa ekki svarað. Einnig væri æskilegt að fjölmiðlar fylgdu þessum málum eftir,“ segir Sigmundur Davíð og undirstrikar, að íslensk stjórnvöld megi ekki komast upp með „að sýna algjöran barnaskap“ í þessum málum.
Viljinn hefur skýrt frá margvíslegum fyrirvörum Vinstri grænna við nýtt útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra, sem mælt var fyrir á mánudag og vísað til nefndar. Sigmundur Davíð er greinilega ekki undrandi á þeim tíðindum, að VG ætli ekki að standa við sinn hluta samkomulags stjórnarflokkanna. Jón Gunnarsson fv. dómsmálaráðherra sagði á þingi í gær, að frekari tafaleikir af hálfu Vinstri grænna eða málamiðlanir um þessi mál, væru ekki í boði.
Um þessa þróun segir Sigmundur Davíð: „Á sama tíma berast fréttir um að VG hafi efasemdir um eina málið sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk í hinu mikla samkomulagi ríkisstjórnarinnar um útlendingamál. VG vilja fyrst keyra í gegn áform um aukna þjónustu, aðlögun samfélagsins að hælisleitendum og annað sem eykur á aðdráttarafl landsins.
Þetta var algjörlega fyrirsjáanlegt eins og ég benti á þegar áformin voru kynnt. Þessi málaflokkur er í algjöru rugli og engin merki um að það breytist með þessari ríkisstjórn.“