„Að sjálfsögðu á Sigríður Andersen endurkomu í ríkisstjórn. Það er bara engin spurning!“ svaraði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, á opnum fundi þingflokksins í Valhöll í gær, er blaðamaður Viljans spurði hann í fyrirspurnartíma fundarins í hvaða farvegi Landsréttarmálið sé og hvort að Sigríður Á. Andersen eigi afturkvæmt í embætti dómsmálaráðherra.
„Hún getur átt endurkomu í ríkisstjórn, það er ekkert sem kemur í veg fyrir það,“ hélt Bjarni áfram og sagði: „Landsréttarmálið er í þeim farvegi að við bíðum núna eftir niðurstöðu varðandi þetta málsskot sem átti sér stað af hálfu íslenskra stjórnvalda.“
Ekkert sem kemur í veg fyrir að dómararnir haldi áfram að dæma
Bjarni sagði að mikilvægara sé að fá botn í þá spurningu hér heima fyrir, hvort að dómararnir geti ekki haldið áfram að dæma. „Það er í raun eingöngu Hæstiréttur sem getur botnað það mál og þarf að gera það með skýrum hætti, hvort að dómurinn sem féll úti [hjá Mannréttindadómstól Evrópu], hafi einhverja raunverulega þýðingu fyrir málið hérna heima. Hæstiréttur er búinn að dæma um það mál, hann svaraði því þannig, að það sé ekkert sem komi í veg fyrir það.“
Bjarni hélt áfram: „En nú hefur þeirri spurningu verið velt upp öðru sinni, hvort sá dómur standi. Og við þurfum að fá svar við því aftur. Ég geri ráð fyrir því að dómur falli á sama veg, að dómurunum sé bara sætt áfram í embætti, og það hafi ekkert breyst, þrátt fyrir þessa niðurstöðu. Skuldbinding okkar snúi fyrst og fremst að framtíðinni, að huga að því hvernig dómarar verða skipaðir í framtíðinni, það er það sem ég geri ráð fyrir, enda kæmi mér mjög á óvart, ef niðurstaðan yrði á annan veg. Þetta þarf að skýrast, það er staða Landsréttarmálsins og í raun og veru ekkert sem að mér er kunnugt um sem er á borðunum varðandi inngrip stjórnvalda inn í málið með einhverjum frekari hætti.“