Enginn dómaranna fjögurra handgenginn ráðherra eða pólitískur

Landsréttur.

„Stjórn­skip­un Íslands og annarra vest­rænna lýðræðisþjóða stefn­ir að því að halda uppi friði og lög­um. Stjórn­ar­skrá okk­ar ger­ir ráð fyr­ir að þetta sé gert með því að þrír þætt­ir rík­is­valds tempri hver ann­an og að stjórn­völd svari til ábyrgðar gagn­vart þjóð sinni. Með úr­lausn sinni hef­ur meiri­hluti MDE sýnt stjórn­skipu­legri vald­temprun hér á landi lít­ilsvirðingu með því að gefa ekk­ert fyr­ir þá staðreynd að bæði Alþingi og Hæstirétt­ur Íslands, sem og raun­ar for­seti lýðveld­is­ins að und­an­geng­inni lög­fræðilegri út­tekt, höfðu áður fjallað um málið og að þess­ar meg­in­stoðir lýðveld­is­ins höfðu ekki látið til­greinda ann­marka leiða til þeirr­ar niður­stöðu sem meiri­hluti MDE kemst að, þ.e. að ástæða sé til að draga í efa að málsaðilar njóti rétt­látr­ar málsmeðferðar fyr­ir óháðum og óhlut­dræg­um dómur­um. Að íhuguðu máli leyfi ég mér að ef­ast um að af­greiðsla MDE sé réttar­fars­legt gustuka­verk, held­ur tel ég að niðurstaðan sé ný teg­und óskapnaðar, sem aðild­arþjóðir hljóti að sam­ein­ast gegn í þeim til­gangi að verja full­veldi sitt. “

Þetta segir Arnar Þór Jónsson héraðsdómari í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

„Á sama tíma og MDE birt­ir dóm sinn um hinn ís­lenska Lands­rétt und­ir­býr MDE að leggja dóm á mál frá öðrum Evr­ópu­lönd­um þar sem vegið mun hafa verið grímu­laust að sjálf­stæði dóm­stóla með póli­tísk­um hreins­un­um. Við áfrýj­un máls­ins hljóta ís­lensk stjórn­völd að leggja þunga áherslu á að dóm­ur­inn geri skils­mun á aðstæðum í hverju landi fyr­ir sig og grafi ekki und­an réttar­fram­kvæmd í einu ríki í nafni þró­un­ar sem á sér stað ann­ars staðar í Evr­ópu. Meðan Ísland má kall­ast full­valda ríki ber ráðamönn­um að vera mjög á varðbergi gagn­vart því að er­lend­ir dóm­stól­ar og / eða yfirþjóðleg­ar stofn­an­ir seil­ist til valda í mál­um sem Íslend­ing­ar eiga for­ræði á. Í því sam­hengi ber ráðamönn­um að gjalda var­hug við að Ísland verði vafið inn í alþjóðleg­ar póli­tísk­ar flétt­ur, sem eru sér­ís­lensk­um aðstæðum óviðkom­andi. 

Arnar Þór Jónsson héraðsdómari.

Að þessu sögðu tel ég mér einnig skylt að benda á að það kann að reyn­ast Pyrr­hos­ar­sig­ur að þrengja mjög að skip­un­ar­valdi dóms­málaráðherra, því vand­séð er að ákv­arðanir um val á dóm­ara­efn­um séu ör­ugg­lega bet­ur komn­ar í hönd­um sér­fræðinga­nefnda. Margreynt er að „harðstjórn um­sjón­ar­mann­anna“ (e. adm­in­istrati­ve despot­ism) er engu betri en ann­ars kon­ar harðstjórn,“ bætir dómarinn við.

„Vel kann að vera að dómur­um sem horfa til Íslands frá Strass­borg kunni að þykja Lands­rétt­ar­málið líta illa út og að það lykti af póli­tískri spill­ingu. Hér skal ekki lítið úr því gert að fyrr­ver­andi dóms­málaráðherra hef­ur legið und­ir hvössu ámæli fyr­ir verklag sitt.

Hver sem tal­ar þannig um þessa fjóra dóm­ara brýt­ur gegn sann­leik­an­um.

Að því sögðu má und­ir­strika að í til­vik­um sem þess­um krist­all­ast mik­il­vægi ná­lægðarregl­unn­ar, þ.e. að all­ar ákv­arðanir skuli tekn­ar sem næst vett­vangi. Hæstirétt­ur Íslands stóð að þessu leyti bet­ur að vígi en MDE þegar Hæstirétt­ur, sem æðsti dóm­stóll þjóðar­inn­ar, lagði sinn dóm á málið.

Hver ein­asti dóm­ari Hæsta­rétt­ar var nefni­lega fylli­lega meðvitaður um þá staðreynd að eng­inn þeirra fjög­urra dóm­ara sem málið snýst um get­ur tal­ist „póli­tísk­ur“ og eng­inn þeirra er „hand­geng­inn“ ráðherra. Hver sem tal­ar þannig um þessa fjóra dóm­ara brýt­ur gegn sann­leik­an­um. Mér vit­an­lega hef­ur eng­inn þess­ara fjór­menn­inga nokkru sinni komið fram op­in­ber­lega og lýst per­sónu­legri af­stöðu sem kalla mætti póli­tíska skoðun. Þetta segi ég þessu ágæta fólki hvorki til hróss né lasts. Ég nefni þetta aðeins til að und­ir­strika að þess­ir fjór­ir dóm­ar­ar eru vamm­laust fólk, sem alla tíð hef­ur sinnt dóm­störf­um sín­um af heil­ind­um og af sam­visku­semi.

Umræða um Lands­rétt­ar­málið er kom­in út á al­gjör­ar villi­göt­ur ef hún fer að snú­ast um að gera þetta sóma­fólk á nokk­urn hátt tor­tryggi­legt. Þótt Hæstirétt­ur hafi talið að ágall­ar hafi verið á meðferð máls­ins tók hann ekki það óheilla­skref sem meiri­hluti MDE kaus að stíga, enda hef­ur það löng­um verið viður­kennd meg­in­regla ís­lensks rétt­ar að ólög­mæti leiði ekki sjálf­krafa til ógild­is,“ segir Arnar Þór ennfremur.