„Stjórnskipun Íslands og annarra vestrænna lýðræðisþjóða stefnir að því að halda uppi friði og lögum. Stjórnarskrá okkar gerir ráð fyrir að þetta sé gert með því að þrír þættir ríkisvalds tempri hver annan og að stjórnvöld svari til ábyrgðar gagnvart þjóð sinni. Með úrlausn sinni hefur meirihluti MDE sýnt stjórnskipulegri valdtemprun hér á landi lítilsvirðingu með því að gefa ekkert fyrir þá staðreynd að bæði Alþingi og Hæstiréttur Íslands, sem og raunar forseti lýðveldisins að undangenginni lögfræðilegri úttekt, höfðu áður fjallað um málið og að þessar meginstoðir lýðveldisins höfðu ekki látið tilgreinda annmarka leiða til þeirrar niðurstöðu sem meirihluti MDE kemst að, þ.e. að ástæða sé til að draga í efa að málsaðilar njóti réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómurum. Að íhuguðu máli leyfi ég mér að efast um að afgreiðsla MDE sé réttarfarslegt gustukaverk, heldur tel ég að niðurstaðan sé ný tegund óskapnaðar, sem aðildarþjóðir hljóti að sameinast gegn í þeim tilgangi að verja fullveldi sitt. “
Þetta segir Arnar Þór Jónsson héraðsdómari í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
„Á sama tíma og MDE birtir dóm sinn um hinn íslenska Landsrétt undirbýr MDE að leggja dóm á mál frá öðrum Evrópulöndum þar sem vegið mun hafa verið grímulaust að sjálfstæði dómstóla með pólitískum hreinsunum. Við áfrýjun málsins hljóta íslensk stjórnvöld að leggja þunga áherslu á að dómurinn geri skilsmun á aðstæðum í hverju landi fyrir sig og grafi ekki undan réttarframkvæmd í einu ríki í nafni þróunar sem á sér stað annars staðar í Evrópu. Meðan Ísland má kallast fullvalda ríki ber ráðamönnum að vera mjög á varðbergi gagnvart því að erlendir dómstólar og / eða yfirþjóðlegar stofnanir seilist til valda í málum sem Íslendingar eiga forræði á. Í því samhengi ber ráðamönnum að gjalda varhug við að Ísland verði vafið inn í alþjóðlegar pólitískar fléttur, sem eru séríslenskum aðstæðum óviðkomandi.
Að þessu sögðu tel ég mér einnig skylt að benda á að það kann að reynast Pyrrhosarsigur að þrengja mjög að skipunarvaldi dómsmálaráðherra, því vandséð er að ákvarðanir um val á dómaraefnum séu örugglega betur komnar í höndum sérfræðinganefnda. Margreynt er að „harðstjórn umsjónarmannanna“ (e. administrative despotism) er engu betri en annars konar harðstjórn,“ bætir dómarinn við.
„Vel kann að vera að dómurum sem horfa til Íslands frá Strassborg kunni að þykja Landsréttarmálið líta illa út og að það lykti af pólitískri spillingu. Hér skal ekki lítið úr því gert að fyrrverandi dómsmálaráðherra hefur legið undir hvössu ámæli fyrir verklag sitt.
Hver sem talar þannig um þessa fjóra dómara brýtur gegn sannleikanum.
Að því sögðu má undirstrika að í tilvikum sem þessum kristallast mikilvægi nálægðarreglunnar, þ.e. að allar ákvarðanir skuli teknar sem næst vettvangi. Hæstiréttur Íslands stóð að þessu leyti betur að vígi en MDE þegar Hæstiréttur, sem æðsti dómstóll þjóðarinnar, lagði sinn dóm á málið.
Hver einasti dómari Hæstaréttar var nefnilega fyllilega meðvitaður um þá staðreynd að enginn þeirra fjögurra dómara sem málið snýst um getur talist „pólitískur“ og enginn þeirra er „handgenginn“ ráðherra. Hver sem talar þannig um þessa fjóra dómara brýtur gegn sannleikanum. Mér vitanlega hefur enginn þessara fjórmenninga nokkru sinni komið fram opinberlega og lýst persónulegri afstöðu sem kalla mætti pólitíska skoðun. Þetta segi ég þessu ágæta fólki hvorki til hróss né lasts. Ég nefni þetta aðeins til að undirstrika að þessir fjórir dómarar eru vammlaust fólk, sem alla tíð hefur sinnt dómstörfum sínum af heilindum og af samviskusemi.
Umræða um Landsréttarmálið er komin út á algjörar villigötur ef hún fer að snúast um að gera þetta sómafólk á nokkurn hátt tortryggilegt. Þótt Hæstiréttur hafi talið að ágallar hafi verið á meðferð málsins tók hann ekki það óheillaskref sem meirihluti MDE kaus að stíga, enda hefur það löngum verið viðurkennd meginregla íslensks réttar að ólögmæti leiði ekki sjálfkrafa til ógildis,“ segir Arnar Þór ennfremur.