Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur brugðist við aðsteðjandi vá vegna Kórónaveirufaraldursins með tilliti til heimilislausra sem reiða sig á neyðarskýli borgarinnar. Þetta fólk telst vera í sérstökum áhættuhóp og eru aðgerðirnar í samræmi við það.
Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, segir í svari við fyrirspurn Viljans, að borgin reki neyðarskýlin á Lindargötu og á Grandagarði og sé með sérstaka viðbragðsáætlun fyrir skýlin, sem hafi verið uppfærð á neyðarstig. Meðal verkefna sé áhættumat en búið sé að meta alla einstaklinga sem koma reglulega í gistiskýlin. Þeir karlar sem eru í mestri áhættu séu á Lindargötu, hinir á Grandagarði.
„Þar er búið að taka viðbótarhúsnæði á leigu, við hliðina á Grandagarði 1 A. Þar eru þrjú herbergi, sem einstaklingar í sóttkví/einangrun gætu verið. Velferðarsvið er með tvo hjúkrunarfræðinga sem fara í sitthvort skýlið, á Lindargötu og í Grandagarð og er staða gestanna metin á morgnana, m.a. hiti mældur þegar það á við. Fylgst er vel með Covid einkennum til að senda þá sem sýna einkenni í sýnatöku,“ segir hún.
Hingað til hefur enginn í hópnum reynst jákvæður. Forstöðumenn neyðarskýlanna eru vakandi fyrir því að leita í bakvarðarsveit velferðarmála þegar álagið fer að aukast á starfsmannahópinn. Þau hafa náð að ráða inn starfsmenn til að koma til móts við aukinn opnunartíma.
„Konukot er rekið af Rauða krossinum en velferðarsvið greiðir þeim fyrir reksturinn. Við erum að vinna að því núna að taka viðbótarhúsnæði á leigu fyrir konur og einnig erum við í samstarfi við félagsmálaráðuneytið um frekari úrræði fyrir þennan hóp og þá á landsvísu,“ bætir Regína við og segir Velferðarsvið með sérstaka neyðarstjórn sem hittist daglega. Auk þess eru fjórir undirhópar, og er einn þeirra með sérstaka áherslu á stöðu heimilislausra. Loks er sviðið með sérstaka smitvarnarnefnd.