Enn eitt flugfélagið gjaldþrota: Flybmi gefst upp

Breska flugfélagið Flybmi hefur aflýst öllum ferðum sínum og óskað eftr greiðslustöðvun. Þetta var tilkynnt í kvöld, en félagið á 17 þotur og hefur flogið til 25 borga í Evrópu, þar á meðal Íslands.

Í tilkynningu segist félagið hafa orðið illa fyrir barðinu á hækkandi eldsneytiskosnaði og óvissu vegna Brexit.

Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia.

Ferðamenn sem verða nú strandaglópar eru beðnir um að hafa samband við ferðaskrifstofur, tryggingafélög og greiðslukortafyrirtæki til að kanna rétt sinn, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

Að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia, hefur breska félagið ekki flogið til Keflavíkur að undanförnu og þess vegna eru engir farþegar í vandræðum hér á landi af þessum sökum.