Enn eitt smitið rakið til Tenerife

Bresk heilbrigðisyfirvöld tilkynntu í morgun um tvö ný smit af völdum Kórónaveirunnar. Annað er rakið til Ítalíu, en í hinu tilfellinu er um að ræða ferðamann sem er nýkominn frá Tenerife.

Fimmtán smit hafa nú verið staðfest í Bretlandi.

Sjúklingarnir tveir hafa verið settir í einangrun á sjúkrahúsum í Liverpool og Lundúnum, að sögn Breska ríkisútvarpsins.

Ekki liggur fyrir hvar ferðamaðurinn sem nýkominn er frá Tenerife gæti hafa smitast, en þúsund manns eru nú í sóttkví á hóteli á eyjunni, þar af tíu Íslendingar. Fjórir gestir hótelsins hafa greinst með smit.

Mörg hundruð Íslendingar eru staddir á Tenerife í fríi um þessar mundir og mikill fjöldi landsmanna hefur komið þaðan hingað til lands undanfarna daga.