Enn fjölgar smitum: Ellefu hafa nú greinst með Kórónaveiruna

Tveir Íslendingar til viðbótar greindust í morgun með Kórónaveiruna og hafa því alls ellefu Íslendingar greinst með veiruna, frá því fyrsta tilfellið kom upp á föstudag.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkislögreglustjóra, greindi frá þessu í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins nú áðan.

„Við vorum að fá tilkynningu um tvo til viðbótar í þessum hóp frá Ítalíu,“ sagði hann, en yfir 300 manns eru nú í sóttkví á landinu og má búast við að fjölgi í þeim hópi í dag.

Beðið er niðurstaðna úr fjölda sýna sem tekin hafa verið úr fólki, þannig að tala smitaðra gæti hækkað þegar líður á daginn, ekki síst ef miðað er við hraða útbreiðslu undanfarna daga.