Theresa May, forsætisráðherra Breta, þurfti enn og aftur að bíða sögulegan ósigur í breska þinginu í kvöld, þegar meirihluti þingmanna í neðri deild breska þingsins hafnaði í annað sinn samningi ríkisstjórnarinnar við Evrópusambandið um útgöngu landsins úr sambandinu, sem áætluð er 29. mars nk.
Samningnum var hafnað með 391 atkvæði gegn 242.
Forsætisráðherrann tilkynnti samstundis (nær raddlaus eftir maraþonviðræður við evrópska kollega sína undanfarna daga) að ástandið væri grafalvarlegt, nú verði umræða um málið í þinginu á morgun og þá verði að taka ákvörðun um hvort Brexit verður að veruleika undir mánaðarmótin án nokkurs samnings og verði það fellt, þurfi að skoða einhverja frestun á útgöngunni.
Boðaði May sérstaka yfirlýsingu fyrir opnun markaða á morgun, enda eru gífurlegir efnahagslegir hagsmunir undir fyrir Breta og fjármálamarkaðir í viðbragðsstöðu og gengi sterlingspundsins í uppnámi.
Jeremy Corbyn, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, sagði ótrúlegt að horfa á hrakfarir forsætisráðherrans aftur og aftur og best væri að boða til þingkosninga í landinu.