Er eðlilegt að sveiflukennt og áætlað söluverðmæti eignar myndi skattstofn?

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í baksýn. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Það er ástæða til að fagna áformum um lækkun tekjuskatts, enda hafa skattalækkanir lengi verið á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins. „En ávallt getum við þó spurt, er nóg að gert? Má ekki taka ákveðna skattstofna til gagngerrar endurskoðunar? Þetta á ekki aðeins við um tekjustofna ríkisins heldur einnig sveitarfélaganna. Nefna má fasteignaskattinn í þessu sambandi en hann er næststærsti tekjustofn sveitarfélaga á eftir útsvarinu.“

Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, í grein í Morgunblaðinu, sem ber yfirskriftina: „Sjálfkrafa skattahækkun“ og hún hefur einnig birt á fésbókarsíðu sinni.

„Fasteignaskattur ákvarðast af áætluðu markaðsverðmæti fasteignar. Þetta mat er framkvæmt af Þjóðskrá Íslands. Á grundvelli fasteignamatsins hafa tekjur sveitarfélaga – og um leið útgjöld heimilanna – af fasteignaskatti hækkað mjög verulega á síðustu árum vegna hækkandi fasteignaverðs. Á milli áranna 2017og 2018 hækkaði heildarmat fasteigna á Íslandi um 12,8% en fyrir árið 2020 er hækkunin rúm 6%. Samtals nema tekjur sveitarfélaganna af innheimtu fasteignaskattsins vel yfir 40 milljörðum króna á ári.

En er eðlilegt að sveiflukennt og áætlað söluverðmæti eignar myndi skattstofn? Að skattstofninn hækki vegna þess eins að það er húsnæðisbóla í hagkerfinu? Hjá flestum er eignin er sú sama, nýting hennar hefur ekkert breyst og þjónusta sveitarfélagsins óbreytt. Í þessu felst að gengið er á eign þeirra sem búa í eigin húsnæði. Ef eignin er leigð út hækkar leiguverðið. Skatturinn hækkar vegna þess að önnur hús hafa áhrif til hækkunar á áætlað söluverð fasteignarinnar.

Framangreint fyrirkomulag hefur leitt til þess að tekjur sveitarfélaga af skattinum hafa hækkað sjálfkrafa um tugi prósenta á örfáum árum. Greiðendur skattsins sjá að vísu hærri tölur á blaði varðandi verðmæti eignarinnar en það er sýnd veiði en ekki gefin. Aðeins er um matskennda áætlun að ræða en ekki raunveruleg verðmæti sem skattgreiðandinn getur nýtt sér. Hækkunin tengist ekki aukinni þjónustu. Staðreyndin er sú að álögur á viðkomandi hafa aukist og hann hefur minna á milli handanna ár frá ári vegna skattheimtunnar.

Margar Evrópuþjóðir hafa afnumið skatta af þessu tagi. Norðurlandaþjóðir miða slíka álagningu við 70-80% af áætluðu fasteignamati og styðjast auk þess við lægra skatthlutfall. Þegar stefnt er að auknu gagnsæi, festu og fyrirsjáanleika í allri skattheimtu hljótum við að finna sanngjarnari leið en matskennt markaðsverðmæti fasteigna til að afla sveitarfélögunum tekna,“ segir dómsmálaráðherra ennfremur.