Er eitthvað eftir af vinstrinu?

Eftir Mitchell Abidor (birtist í Foreign Affairs á dögunum):

Alla laugardaga síðastliðnar 29 vikur hafa Gulvestungar efnt til mótmæla. Þeir hafa komið bæði úr hópi vinstri og hægri manna, ásamt óskilgreindum. Mótmælin hafa á stundum magnast upp í átök, ýmist að frumkvæði mótmælenda eða yfirvalda. Hverjar sem stjórnmálaskoðanir Gulu vestanna kunna að vera, þá virðast þau eiga eitt sameiginlegt: botnlausa andúð á forseta Frakklands, Emmanuel Macron.

Þau hægri sinnuðu halda að Macron sé að afhenda Frakkland möppudýrum Evrópusambandsins, ásamt því að opna flóðgátt straums innflytjenda, og vinstri vestin líta á hann sem forseta ríkmenna. Þeim finnst forsetann skorta skilning og umhyggju fyrir hinum almenna franska borgara. Um hverja helgi, í allan þennan tíma, hefur Macron orðið að sitja undir skítkasti og snautyrðum mótmæla Gulvestunga vítt og breitt um Frakkland.

Evrópuþingkosningarnar, sem fram fóru í lok maí, hefðu varla getað farið fram á verri tímapunkti fyrir forsetann, því þær urðu að almennri atkvæðagreiðslu um valdatíð hans. Andstæðingar Macron sáu kosningarnar sem gullið tækifæri til að slá hann út af laginu, hagstæðir vindar blésu fyrir pólitískar umbreytingar, og mikill fylgisvöxtur lengst til hægri virtist fyrirfram gefinn. Viðsnúningur í frönskum og evrópskum stjórnmálum þótti vera innan seilingar.

En það varð ekki. Þjóðfylking Marine Le-Pen, Rassemblement National, endaði að vísu í forystu með 24,52%, en aðeins naumlega á undan mið-hægri flokki Macron, En Marcé með 22,84%. Svipaði úrslitunum til niðurstöðu fyrstu umferðar forsetakosninganna í Frakklandi árið 2017, þegar hún varð 21,2% og 24,01%. Því er varla hægt að tala um neinar sláandi breytingar miðað við allt sem á undan er gengið í Frakklandi. Umrótið varð í sætunum fyrir neðan þessa tvo flokka.

Kommúnistar eiga sér vart viðreisnar von

Íhaldsflokkur Frakklands, Lýðveldisflokkurinn, hrapaði úr 20% ársins 2017, niður í 13,05% og vinstri flokkurinn La France Insoumise tapaði jafnvel enn meira fylgi, og fór úr 19,58% í aðeins 7,94%. Sósíalistar, í bandalagi við Place Publicue, héldu í 6% fylgi sitt og Kommúnistar, sem bundið höfðu miklar vonir við nýjan ungan leiðtoga, fengu ekkert sæti á Evrópuþinginu og féllu niður fyrir þau þrjú prósent sem nauðsynleg eru til að fá kosningastyrk frá ríkinu. Kommúnistar, sem voru engir bógar fyrir, eiga sér nú vart viðreisnar von.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti.

Græningjar, sem mynduðu bandalag við Sósíalista í kosningunum árið 2017, höfnuðu samstarfi að þessu sinni, og meira en tvöfölduðu fylgi sitt með 13,47%. Svipaða sögu er að segja víðar í Evrópu, áður hundtryggir íhaldsmenn sneru sér að hægri flokkum Evrópu-efasemdarmanna, á meðan kjósendur flýðu grotnandi vinstrið yfir til Græningja, hina sönnu sigurvegara Evrópuþingkosninganna.

Nú þegar harðnar á dalnum í efnahagslífinu, og með innflytjendur og innflytjendastefnu sem áhyggjuefni, sóttu franskir og evrópskir kjósendur í þrjár áttir: meira af því sama, hægri þjóðernisstefnu og óvænt, umhverfismál. Fáir höfðu áhuga á málefnum vinstri flokkanna. Sameinaða evrópska vinstrið/Vinstri grænir flokkar í Skandinavíu, og vinstri grúbba flokka á borð við hinn gríska Syriza, spánska Podemos og franska La France Insoumise, töpuðu samtals 14 þingsætum og verða nú minnsta bandalagið á Evrópuþinginu.

Greiningar á samanskroppnu vinstrinu beinast gjarnan að persónuleikum og skilaboðum leiðtoga flokkanna. Robert Zaretsky, greindi franskt stjórnmálalíf í Foreign Affairs, og kannaði stefnumálin sem drifu kosningabaráttu forystumanns bandalags Sósíalista/Place Publicue, Raphaël Glucksmann. Glucksmann andæfði nýfrjálshyggju og velvild Macron gagnvart óbeisluðum lögmálum markaðarins, og krafðist þess að „Frakkland styrki böndin sem framgangur 21. aldar kapítalisma hafi slitið í sundur“.

Zaretsky lýsir óspennandi Glucksmann, og máttleysi hans við að koma skilaboðunum á framfæri: „Lufsulegt yfirbragð – svartar gallabuxur, fráhnepptar skyrtur og órakað andlit – í stíl við þvælda orðræðu“. Enginn hafði búist við að Glucksmann hefði tærnar þar sem Jean Jaurès, mesti leiðtogi sósíalista í Frakklandi frá árinu 1914, var með hælana. En vandamál tengd yfirbragði og hæfni leiðtoganna leikur aðeins aukahlutverk í falli vinstrisins. Að miða við Jaurès er að setja markið of hátt, og miða við aðra tíma. Sé vinstrið að verða að engu, þá er það vegna þess að það hangir, eins og hundur á roði, á hugmyndum sem eiga ekki erindi í dag. Talsmenn vinstri stefnu eru orðnir eins og ritvélasölumenn, á tímum sem fólk kaupir sér tölvur. Jaurès var stórkostlegur leiðtogi síns tíma, er hann talaði máli stækkandi stéttar iðnverkamanna sem átti framtíðina fyrir sér. Sá heimur er nú horfinn. Ef Glucksmann kæmi fram sléttur og strokinn, með líflegar ræður, myndu þær hreyfa við fjöldanum til að kjósa sósíalisma eins og áður? Varla, þegar allt sem sósíalisminn byggir á, og liggur til grundvallar vinstri stefnu dagsins í dag, er komið langt fram yfir síðasta söludag.

Ekki lengur drifkraftur félagslegra breytinga

Á sjöunda áratugnum settu hugsuðir nýja vinstrisins, þeir Herbert Marcuse og Cornelius Castoriadis, fram kenningar um að hinar vinnandi stéttir væru ei lengur drifkraftur félagslegra breytinga, þær hefðu nú þegar verið samofnar kerfinu. Upphaflegur harðasti andstæðingur kapítalismans, hinar vinnandi stéttir, voru nú orðnar helstu liðsmenn hans. Þeir höfðu rétt fyrir sér; því allt frá BREXIT til Le Pen til Donald Trump, hinar vinnandi stéttir eru kjölfestan í fylgi þessara aðila. Vinstrið – sem enn hefur jafnaðarstefnuna að aðalmarkmiði – lætur samt enn eins og kosningafylgi sitt sé þar að finna. Það talar til ímyndaðs hóps vinnandi fólks, um háleitar hugmyndir og draumsýn, jöfnuð, sameign og sameiginlega hagsmuni verkamanna yfir öll landamæri. Undir forystu Jaurès, höfðaði þessi orðræða eitt sinn til kjósenda, en fellur nú fyrir daufum eyrum.

Fækkun í hópi hinna vinnandi stétta, auk vaxandi áhuga þeirra á þjóðernisstefnu og ótta við innflytjendur, eru ekki nýjustu fréttir. Hversvegna vinstrið kaus að stinga höfðinu í sandinn varðandi þær fram að þessu, verður ef til vill best svarað af rithöfundinum og heimspekingnum George Steiner. Í ritgerð sem birtist í tímaritinu Granta árið 1990, um það leyti er Sovíetríkin féllu, færði Steiner rök fyrir því að Marxisminn hefði skapað „ólýsanlegan skepnuskap“, „óhugnanlega sjálfsblekkingu“ – og „skelfilegt ofmat á getu manna til að lifa eftir valdboðinni óeigingirni, frómleika og hugmyndafræðilegri hreinstefnu“. Hrun þessa fyrirkomulags hafi verið „hefnd, sem slík sjálfsupphafning mannanna átti skilda“.

Orð Steiner um Austantjaldslöndin á þessum tímapunkti eiga nú við um Vesturlönd, þremur áratugum síðar. Vinstrið virðist þó enn ekki átta sig á að draumsýn um alræði öreiganna, byggð á sjálfsblekkingu um að æðstu markmið hinna vinnandi stétta, sé fjölmenningarþjóðfélag, bræðralag og sjálfsfórn í þágu almannaeignar, eigi ekki lengur erindi við kjósendur. Tíðarandinn bærist ekki í þessa átt. Hrævareldar vinstrisins hafa slokknað, og myrkur þjóðernissinnaðs hægris hellist nú yfir. Glansmynd vinstrisins af gnægð starfa án landamæra hefur fölnað og í hennar stað er tekin að skýrast mynd af þjóðríkjum sem keppast um að vera hinum æðri. Internasjónalinn hefur þagnað, fyrir grínskets Mel Brooks, „2000 ára gamli maðurinn“, sem sagði að þjóðsöngurinn í hellinum hans væri: „Fari þeir allir til fjandans, nema hellir 76“.

Sé vinstrið nú í dauðateygjunum, hver er þá skýringin á risi Græningjaflokka víða í Evrópu?

Þýskir Græningjar ruku upp í annað sætið með 20,5% atkvæða í Evrópuþingkosningunum og franskir Græningjar, sem buðu ekki einu sinni fram í forsetakosningunum 2017, urðu í þriðja sæti. Var vinstrið að endurfæðast? Sú er ekki raunin. Græningjar ætla sér ekki að fara að lemja dauðan hest eins og áður, heldur ná fram breytingum án hjálpar öreiganna og sósíalískrar hugmyndafræði. Leiðtogi franskra Græningja, Yannick Jadot sagði í útvarpsviðtali: „leiðtogar okkar eru fastir í fortíðinni“. Þó Græningjar geri talsvert skurk í þágu umhverfisins, virðist stefna þeirra ekki vera teljandi ógn við hin ríkjandi kerfi. Jadot ræddi málefni sem hefðbundnir flokkar hafa skirrst við að setja á dagskrá, eins og „velferð dýra, meðferð skordýraeiturs, loftslagsbreytingar, orkumál og loftmengun“. Ójöfnuð og félagslegt óréttlæti er hvergi að finna á stefnuskránni, aðeins að ógn af loftslagsbreytingum sé óhrekjanleg og hana verði að fást við. Það er verkefni sem ætti að vera auðveldara að reyna að leysa framúr en að jafna út eignir, kjör og stöðu fólks.

Í apríl gerði Jadot skýra grein fyrir því að Græningjaflokkur hans væri ekki vinstri flokkur, og sagði án þess að skafa utan af því: „umhverfisvernd er ekki vinstri stefna“, að sjálfur sé hann „umhverfisverndarsinni, ekki sósíaldemókrati“, og að það sé í raun ekkert vinstri við Græningjaflokka. Hreyfingu umhverfisverndarsinna sé almennt lýst í ritgerð Mark Lilla sem birtist í desember árið 2018 í The New York Rewiev of Books um „Nýja franska hægrið“. Lilla lýsti því hvernig hægrið hafi í meira mæli tekið við sér eftir að páfagarður gaf út yfirlýsingu sem varðaði umhverfið og félagslegt réttlæti árið 2015. Afturhvarf til jarðarinnar sé nú orðið jafn mikið hægra og vinstra málefni.

Græningjar ekki vinstri valkostur

Svo því sé haldið til haga, þá lagði Macron skatta á eldsneyti í viðleitni sinni til að stýra Frakklandi í átt að hreinni orku – en einmitt sú ákvörðun varð upphaflega kveikjan að mótmælum Gulu vestanna. Barnalegt er að halda að baráttu við loftslagsbreytingar, með því að seilast í veski skattgreiðenda og valda umróti á vinnumarkaði, verði mætt með velvilja kjósenda. Á mótmælaskilti Gulvestungs var t.d. að finna orðin: „Macron lætur sig heimsendi varða, en við höfum áhyggjur af enda mánaðarins“.

Græningjahreyfingin er því ekki vinstri valkostur, sem er styrkur hennar í kosningum. En stefnuskrá þeirra er stutt, og fátt um fína drætti handa þeim sem vilja andæfa hinum sigri hrósandi markaðsöflum. Evrópuþingkosningarnar hafa slökkt vonir fólks á borð við Glucksmann og Gulu vestanna, sem héldu að kröfur og mótmæli þeirra myndu enda í umbreytingum á hagstjórn og samfélaginu, og munu þær óskir áfram standa óuppfylltar um langa hríð.